Lífið

Segja fáránlega eyðslusaman lífsstíl ástæðu fjárhagserfiðleika Johnny Depp

Birgir Olgeirsson skrifar
Bandaríski leikarinn Johnny Depp eyddi 3,4 milljónum íslenskra króna á mánuði í vín, tveimur milljörðum íslenskra króna í 45 metra langa lystisnekkju, tæpum 23 milljónum íslenskra króna á mánuði í einkaflugvélar, tæpum 460 milljónum króna í misheppnaða plötuútgáfu, 17 milljónum króna á mánuði í öryggisgæslu allan sólarhringinn, 34 milljónum króna í 40 manna starfslið á hverjum mánuði og 344 milljónum króna fyrir að láta skjóta ösku rithöfundarins Hunter Thompsons úr fallbyssu.

Þetta kemur allt fram í mótstefnu fyrrverandi umboðsskrifstofu leikarans á hendur honum. Þar kemur fram að það var þessi ríkulegi lífsstíll sem setti fjárhag leikarans á hliðina, en ekki umboðsskrifstofan líkt og Depp hefur haldið fram.

13. janúar síðastliðinn stefndi leikarinn fyrirtækinu Management Group fyrir að hafa haft af honum tugi milljóna dollara með svikum. Hann sakaði fyrirtækið um að hafa farið illa með fjármuni hans, tekið lán án hans samþykkis og falið þetta allt saman fyrir honum.

Depp sagðist hafa komist að þessu þegar umboðsskrifstofan ráðlagði honum að selja stóran hluta af eign sem hann átti í Frakklandi til að borga niður skuldir. Hann sagði í kjölfarið upp samningi sínum við skrifstofuna og fékk sér nýjan umboðsmann.

Management Group segir hins vegar í mótstefnu sinni að Depp hafi verið upplýstur á öllum stigum að hann væri að eyða meiru en hann aflaði.

Segir í stefnunni að Depp hafi bölvað þeim sem sáu um fjármál hans þegar hann fékk slíkar viðvaranir og heimtað að þeir myndu finna leið til að borga fyrir ríkulegan lífsstíl hans.

„Hann sjálfur ber einn ábyrgð á þeim fjárhagslegu erfiðleikum sem hann glímir við í dag.“

Umboðsskrifstofan segir Depp skulda fyrirtækinu 4,2 milljónir dollara og gert kröfu í heimili hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×