Húsnæðismál barna- og unglingageðdeildar Landspítalans hafa verið í ólestri undanfarin misseri. Þannig hafa umfangsmiklar rakaskemmdir herjað á bæði eldri og nýrri byggingu deildarinnar við Dalbraut í Laugardal.
Hafist var handa við úttekt og viðgerðir nýrra hússins fyrir um tveimur árum eftir að starfsmenn fundu fyrir óþægindum sem rakin voru til myglusvepps.
Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landspítalans, segir að verið sé að ljúka við þrif á nýrri byggingunni – en nú taki við umfangsmiklar lagfæringar á þeirri eldri.
„Það er töluvert um rakaskemmdir í því sem við höfum þurft að bregðast við. Í því sambandi þá skoðuðum við þann möguleika að færa legudeild BUGL í St. Jósefsspítala í Hafnarfirði en eftir ítarlega skoðun á því var það ekki talið forsvaranlegt miðað við þann kostnað sem það hefði í för með sér. Þannig að við ætlum að leysa vandann á staðnum,“ segir Ingólfur
Gæti dregið úr fjölda legurýma
Málið verður þó ekki leyst innan dyra, heldur verður starfsfólki komið fyrir í færanlegu húsnæði.„Við ætlum að leigja skrifstofugáma og flytja hluta af skrifstofum tengdum legudeildinni út í gámana og færa okkur til í húsinu. Klæða húsið og skipta um glugga, endurnýja þak og laga innandyra. Það gerum við í áföngum.“
Ingólfur vonast til þess að húsnæðismálin verði komin í gott horf í kringum sumarlok eða haust næsta árs. Hins vegar muni framkvæmdirnar óhjákvæmilega hafa áhrif á umhverfi sjúklinga á BUGL.
„Legudeildin þarf að flytja sig á milli álma og það kemur til með að draga eitthvað úr þeim fjölda legurýma sem við höfum.“