Innlent

Tildrög banaslyss óljós

Þórdís Valsdóttir skrifar
Þrír létust eftir að bifreið þeirra lenti í sjónum við höfnina á Árskógaströnd.
Þrír létust eftir að bifreið þeirra lenti í sjónum við höfnina á Árskógaströnd.
Lögreglan á Norðurlandi Eystra vinnur í því að afla frekari upplýsinga um banaslys sem varð þegar bifreið fór í höfnina við Árskógaströnd síðdegis í gær. Þrír létust í slysinu.

Tilkynning barst lögreglunni á Norðurlandi Eystra um klukkan hálf sex í gær og voru björgunarsveitir, kafarar, sjúkraflutningamenn og lögregla þegar send á staðinn. Ekki leikur grunur á því að neitt saknæmt hafi átt sér stað en mikil hálka var á vettvangi.

Maður, kona og barn náðust öll út úr bílnum og voru þau flutt á sjúkrahúsið á Akureyri á sjöunda tímanum þar sem þau voru úrskurðuð látin.

Ekki er hægt að greina frá nöfnum hinna látnu að svo stöddu en lögreglan á Norðurlandi Eystra vinnur að rannsókn slyssins. Tildrög þess eru ókunn.

Tólf önnur umferðaróhöpp urðu í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi Eystra í gær og í nótt. Flest þeirra má rekja til aðstæðna en snjór og hálka var fyrir norðan. Lögreglan segir að svo virðist sem ökumenn hafi ekki ráðið við aðstæðurnar en óhöppin voru óvenju mörg miðað við fyrstu snjókomu. Um fimmtán sentimetra jafnfallinn snjór var á Akureyri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×