Allir frambjóðendur sem skiluðu löglegum framboðum verða í viðtölum í Fréttablaðinu og í sjónvarpsviðtölum á Stöð 2 sem munu birtast í heild sinni á Vísi.
Um þessar mundir er 365 að framkvæma skoðanakönnun sem birt verður á fimmtudag. Þeir forsetaframbjóðendur sem mælast með 2,5 prósent eða meira í þessari könnun verður boðið í kappræður í beinni útsendingu á Stöð 2 á fimmtudagskvöldið.
Stöð 2 hefur haft samband við alla forsetaframbjóðendur til að kynna fyrir þeim umrædda skoðanakönnun og fyrirkomulag kappræðnanna. Þeir hafa jafnframt verið upplýstir um þennan þröskuld. En hvers vegna 2,5 prósent? Miða þarf við þekktar viðurkenndar stærðir.
Lágmarkið sem löggjafinn setur til að ná inn kjörnum manni í þingkosningum er 5 prósent. Lágmarkið sem stjórnmálaflokkur þarf til þess að njóta styrks úr ríkissjóði sem viðurkennt stjórnmálaafl að loknum þingkosningum er 2,5 prósent.
365 vildi nota almennt viðurkennt viðmið sem þröskuld þegar boð í kappræðurnar er annars vegar.

„Við höfum kynnt fyrirkomulag kappræðnanna á fimmtudagskvöldið fyrir öllum frambjóðendum. Við vildum hafa þetta allt uppi á borðum og miða við þessar þekktu stærðir. 365 leggur áherslu á að vandaða umfjöllun um forsetakosningarnar og henni verður ýtt úr vör í þessari viku,“ segir Kristín.
Kappræðurnar á verða í beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi á fimmtudagskvöld strax að loknum fréttum. Útsending kappræðna hefst kl. 19:00.