Innlent

Gríðarleg fjölgun hælisumsókna hér á landi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fjöldi hælisumsókna eftir mánuðum í ár og í fyrra.
Fjöldi hælisumsókna eftir mánuðum í ár og í fyrra. mynd/útlendingastofnun
Á fyrstu sex mánuðum þessa árs afgreiddi Útlendingastofnun nærri því jafn margar hælisumsóknir og allt seinasta ár. Þetta kemur fram í frétt á vef stofnunarinnar en alls hefur fengist niðurstaða í 310 hælismál það sem af er ári en allt árið 2015 fékkst niðurstaða í 323 mál.

„Af málunum 310 voru 159 mál tekin til efnislegrar meðferðar, 103 mál voru afgreidd með endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, 14 umsækjendur höfðu þegar fengið vernd annars staðar og 34 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka,“ segir á vef Útlendingastofnunarinnar.

Meirihluta þeirra mála sem tekin voru til efnislegrar meðferðar lauk með ákvörðun um synjun, eða 106 málum. 53 málum lauk með ákvörðun um veitingu verndar, viðbótarverndar eða dvalarleyfis af mannúðarástæðum.

„Flestar veitingar voru til umsækjenda frá Írak (17), Íran (10), Sýrlandi (9) og Afganistan (5) en flestir þeirra sem fengu synjun komu frá Albaníu (60), Makedóníu (21), Kósovó (4) og Serbíu (4).“

Á fyrstu sex mánuðum síðasta árs höfðu 86 einstaklingar sótt um vernd hér á landi en á fyrri helmingi þessa árs höfðu 274 einstaklingar frá 42 löndum sóttu um vernd á Íslandi.

„Flestir umsækjendur komu frá Albaníu (69), Makedóníu (35), Írak (25), Sýrlandi (19) og Palestínu (12). Samtals komu 43% umsækjendanna frá löndum Balkanskagans. 75% umsækjenda voru karlkyns (204) og 25% konur (70). 81% umsækjenda voru fullorðnir (222) og 19% börn (52). Umsóknir frá fylgdarlausum ungmennum voru fimm á fyrstu sex mánuðum ársins,“ að því er segir á vef Útlendingastofnunar.


Tengdar fréttir

Mannúðlegara að borga hælisleitendum en að járna

Útlendingastofnun og IOM, Alþjóða fólksflutningastofnunin, undirrituðu í gær samning um að hælisleitendur, sem eiga ekki rétt á vernd hér á landi, geti snúið aftur heim í öruggar aðstæður án aðkomu lögreglu og án aðkomu stjórnvalda og fái jafnvel til þess fjárstuðning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×