Uppfært klukkan 20:45: Einnig verður opnað í Ellingsen í kvöld klukkan 21. Verður verslunin opin í um klukkutíma og verða um 70 treyjur til sölu í allflestum stærðum.
Íslensku landsliðstreyjurnar lentu í Keflavík nú síðdegis og verða þær komnar í bæinn um áttaleytið.
„Það verða kvöldopnanir bæði í Jóa útherja og í Músík og sport og mér skilst að þær verslanir opni um níuleytið,“ segir Þorvaldur Ólafsson framkvæmdastjóri Sport Company ehf. sem er með Errea-umboðið á Íslandi.
Þá fara treyjurnar einnig í sölu hjá Útilíf og Intersport en þær verslanir eru opnar á morgun.
Treyjurnar koma í öllum stærðum, bæði fyrir börn og fullorðna, en Þorvaldur vill ekki gefa upp hversu margar treyjur eru að fara í sölu.
„Eftirspurnin eykst bara með hverjum deginum og ég á ekki von á að allir fái treyju í kvöld sem vilja en þá verður hægt að nálgast þær í Intersport og Útilíf á morgun.“
