Frá því kerfin voru tekin í notkun á endurvinnslustöðvum Sorpu í Hafnarfirði og á Granda á síðasta ári hefur meira magni af umbúðum verið skilað þangað að sögn Guðmundar Tryggva Ólafssonar, rekstrarstjóra endurvinnslustöðva Sorpu.
„Þetta hefur fengið góðar viðtökur. Það hefur verið aukning í skilum síðan þetta var tekið í notkun,“ segir Guðmundur.
Þá segir Guðmundur nýja kerfið krefjast minna af þeim sem skila sem og af starfsmönnum. Vélin les strikamerki á umbúðum. Það eina sem sá sem skilar þurfi að hugsa um sé að halda umbúðunum heilum.

Að sögn Þórhildar vandist hún á að flokka alls konar rusl þegar hún bjó um skeið í Þýskalandi.
„Svo reyndi ég að halda því áfram þegar heim var komið, þótt manni sé ekki alltaf auðveldað það,“ segir Þórhildur. „Maður hefur stundum þurft að standa úti í rigningu og roki að reyna að troða flöskum í einhvern gám. Þá hefur maður verið nærri því að fara og segja endurvinnslunni að eiga þetta bara.“
Vinkonurnar Sigurbjörg Björnsdóttir og Matthildur Sigrúnardóttir voru einnig í Sorpu að skila umbúðum. Þær segjast skila einu sinni á ári þegar flöskurnar og dósirnar hafa safnast upp. Þá nýta þær búbótina í að kaupa sér eitthvað skemmtilegt en nú fást sextán krónur á hverja einingu.
„Við erum tiltölulega nýfluttar inn saman og það er fínt að fara svona saman fjölskyldan og skila,“ segir Sigurbjörg.