Innlent

Formenn Bjartrar og Viðreisnar bíða viðbragða Bjarna við málefnatillögum

Heimir Már Pétursson skrifar
Formenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar kynntu málefnatillögur fyrir formanni Sjálfstæðisflokksins í gær, en formennirnir þrír hafa varist allra frétta af viðræðum þeirra undanfarna tvo sólarhringa. Miklar þreifingar eiga sér stað á bakvið tjöldin og þingflokkar bæði Bjartrar og Viðreisnar funduðu um stöðuna í dag.

Leiðtogar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafa farið með veggjum í gær og í dag en þeir funduðu í gær um mögulega stjórnarmyndun þeirra. Þar lögðu Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar og Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar fram ákveðnar tillögur fyrir Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins samkvæmt heimildum fréttastofunnar og bíða þeir enn viðbragða við þeim eftir því sem fréttastofan kemst næst.

Þingflokkar Viðreisnar og Bjartrar framtíðar funduðu í sitthvoru lagi upp úr hádegi og bjóst Benedikt Jóhannesson fyrir þann fund við því að geta rætt við fréttamenn seinnipartinn í dag. En hann hefur hins vegar ekki enn gefið kost á viðtali og fátt hefur verið um svör frá honum sem og leiðtogum hinna flokkanna. Þá verjast þingmenn flokkanna þriggja allra frétta.

Ljóst er að ólík stefna þessara flokka varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu um framtíð viðræðna við Evrópusambandið sem og varðandi breytta stefnu við úthlutun veiðiheimilda er enn stærsta  og erfiðasta ágreiningsefnið. Flokkarnir hafa hins vegar rætt saman áður fljótlega eftir kosningar og verið í þreifingum undanfarið og ættu því að vera farnir að þekkja sársaukamörk hvers annars varðandi málamiðlanir.

Forseti Íslands hefur einu sinni áður í ferlinu að loknum kosningum ákveðið að veita engum einum umboð til myndunar ríkisstjórnar en spurningin er hversu mikil þolinmæði hans er nú ef ekki fer að skýrast á allra næstu dögum hvort þessir þrír flokkar geti náð saman. Hann gæti þá gripið til þess ráðs að veita einhverjum formanni formlega umboðið í þeirri von að nýtt stjórnarmynstur gæti komið fram. Eða þá að hann kannaði möguleika á að einhverjir flokkar væru til í að verja aðra flokka vantrausti í minnihlutastjórn.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.