Innlent

Formennirnir hittast klukkan ellefu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ákveðið var í gær að hefja formlegar viðræður á milli flokkanna
Ákveðið var í gær að hefja formlegar viðræður á milli flokkanna Vísir/Vilhelm/Anton
Formenn Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar munu hittast í dag í fjármálaráðuneytinu klukkan ellefu til að hefja vinnu við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar.

Ákveðið var í gær að hefja formlegar viðræður á milli flokkanna og eru formenn flokkanna hæfilega bjartsýnir á að þeim takist að mynda ríkisstjórn. Talið er að framhald viðræðnanna muni skýrast um helgina.

Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar segir í samtali við Fréttablaðið að ljóst sé þetta séu ólíkir flokkar og að fólk innan flokksins sé mishrifið af því að Björt framtíð sé að hefja stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn.

Talið er líklegt að Evrópumálin séu flóknasta úrlausnarefnið í viðræðunum en Benedikt Jóhanesson, formaður Viðreisnar, vonast til þess að hægt verði að finna lausn á því. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að Evrópumálunum verði að öllum líkindum vísað til Alþingis til afgreiðslu nái Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð að mynda ríkisstjórn.

Bjarni Benediktssonm, formaður Sjálfstæðisflokksins, telur að það ætti að liggja fyrir á nokkrum dögum hvort flokkarnir nái saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×