Innlent

Katrín Jakobsdóttir boðuð á fund á Bessastöðum á morgun

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir mun funda með forseta Íslands á morgun.
Katrín Jakobsdóttir mun funda með forseta Íslands á morgun. vísir
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur boðað Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, á fund sinn á Bessastöðum klukkan 13 á morgun. Gera má ráð fyrir að þau muni ræða það að Katrín taki við stjórnarmyndunarumboðinu, eftir að viðræður Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sigldu í strand í dag.

Katrín sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að hún sjálf vilji mynda fjölflokka stjórn frá miðju til vinstri. „Það er sá valkostur sem við höfum haldið á lofti,“ sagði Katrín. Þá sagði hún stöðuna flókna og því sé það ekki öfundsvert að reyna að mynda ríkisstjórn.

„Staðan er flókin og það ber heilmikið í milli á milli þessara flokka.“

Uppfært 19:10:

Skrifstofa forseta Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:

„Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson átti síðdegis fund með Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins sem farið hefur með stjórnarmyndunarumboð. Eftir þann fund ræddi forseti við forystufólk allra þeirra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi.

Forseti hefur í kjölfarið boðað Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, til fundar við sig á Bessastöðum kl. 13:00 á morgun, miðvikudaginn 16. nóvember 2016.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×