Innlent

Formaður Samfylkingarinnar: Munum sem ábyrgur flokkur velta fyrir okkur hvernig við getum orðið að liði

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Auðvitað hittist fólk og ræðir málin eins og gengur en það hefur ekki verið með neinum formlegum hætti," segir Logi, spurður hvort rætt hafi verið um mögulega stjórnarmyndun.
"Auðvitað hittist fólk og ræðir málin eins og gengur en það hefur ekki verið með neinum formlegum hætti," segir Logi, spurður hvort rætt hafi verið um mögulega stjórnarmyndun. vísir/ernir
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að enn sem komið er hafi flokkurinn ekki rætt með formlegum hætti mögulegar stjórnarmyndunarviðræður. Hins vegar muni flokkurinn velta því fyrir sér hvernig hann geti orðið að liði í þeim efnum. Hann segir eðlilegt að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, fái stjórnarmyndunarumboðið.

„Við þessar flóknu aðstæður sem uppi eru þá hljótum við sem ábyrgur flokkur að velta því fyrir okkur með hvaða hætti við getum orðið að liði. Það getur verið með ýmsum hætti en ég útiloka ekki neitt,” segir Logi Már, aðspurður hvort flokkurinn hafi áhuga á að taka þátt í stjórnarmyndunarviðræðum. Málefnin þurfi þó að ráða för.

„Forsenda fyrir þátttöku í ríkisstjórn er að málefni okkar verði ofarlega á lista,” segir Logi, en Samfylkingin náði inn þremur þingmönnum í nýliðnum kosningum, og var með sögulega lágt fylgi.

Logi Már segir að þrátt fyrir lítið fylgi muni flokkurinn halda sínu striki. „Auðvitað var þetta hressilegur löðrungur og eðlilega þá kipptumst við til við það. Þegar men jafna sig þá átta þeir sig á því að það er ekkert annað að gera en að bretta upp ermar og halda áfram. Það er flokksstjórnarfundur um helgina og við munum ræða málin og skoða næstu skref.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×