Innlent

Katrín boðar formenn fjögurra flokka á sinn fund

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir undirbýr fundarhöld á morgun.
Katrín Jakobsdóttir undirbýr fundarhöld á morgun. MYND/Ernir
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna ætlar að funda á morgun með formönnum þeirra fjögurra flokka sem hún reynir að mynda með ríkisstjórn. Hún vonar að það skýrist á fundinum hvort grundvöllur er til formlegra viðræðna við leiðtoga flokkanna.

Þingflokkur Vinstri grænna fundaði síðdegis til að fara yfir stöðuna. „Ég hef notað daginn í dag til þess að heyra í fulltrúum flokkanna um framhaldið og hef verið svona að fara yfir afrakstur gærdagsins og svona niðurstöður samtalanna sem við áttum í gær og ég á von á því að það verði boðað til funda á morgun laugardag og þá verði svona kannað frekar hvernig þá einhvers konar málefnalegur grundvöllur gæti verið fyrir myndun fjölflokkaríkisstjórnar,“ segir Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna.

Katrín sér þannig fyrir sér að funda með formönnum Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar. „Ég er einkum að tala við formenn þessara fjögurra flokka sem ég sé fyrir mér að vinna með og vænti þess að þeir verði boðaðir á fund á morgun,“ segir Katrín. Hún vonar að það skýrist á fundinum á morgun hvort grundvöllur er til formlegra stjórnarmyndunarviðræðna.

Þá segir hún sitt fólk bjartsýnt á að hægt verði að mynda fjölflokkaríkisstjórn. „Fólk er mjög einhuga í því að vilja láta á þetta reyna,“ segir Katrín




Fleiri fréttir

Sjá meira


×