Innlent

Mikið um félagsleg vandamál í Breiðholti

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Æsufell í Breiðholti.
Æsufell í Breiðholti. vísir/auðunn
Svört mynd er dregin upp af Efra-Breiðholti í nýrri skýrslu Rauða krossins um hagi lakast settu íbúa Reykjavíkurborgar. „Það er margt sem við viljum ekki vita um Efra-Breiðholt,“ segir sérfræðingur í heilbrigðiskerfinu sem Rauði krossinn vitnar í.

Hverfið er sagt láglaunasvæði með mikla fátækt, mörg þjóðarbrot og mikil félagsleg vandamál. Þá eru margar ómenntaðar, ungar, fátækar mæður sagðar búa í hverfinu en sístur sé hagur erlends fólks í láglaunastörfum.

Í skýrslunni er hverfið sagt skera sig úr að mörgu leyti. Fjórðungur íbúa sé af erlendum uppruna, hlutfallslega fleiri íbúar séu fatlaðir eða með geðraskanir, menntunarstig sé lægra og þar fram eftir götunum.

Hins vegar segir að það beri að hafa í huga að hópurinn sem eigi í vanda sé mun minni en hinn. Flestir plumi sig vel og geti horft björtum augum til framtíðarinnar.

Vandamálin eru hins vegar sögð til staðar. Til að mynda er minnst á hættu á því að innflytjendabörn einangrist félagslega. Hins vegar sé verkefnum á borð við unglingasmiðjur og skólasel ætlað að taka á vandanum. Í sumum tilfellum dugi það hins vegar ekki til.

„Þetta er vaxandi hópur og sannleikurinn er sá að við erum ansi máttlaus hvað þennan hóp varðar. Það vantar róttæk úrræði sem við höfum ekki mótað enn þá,“ er haft eftir starfsmanni velferðarsviðs borgarinnar. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×