Lífið

Clinton sendi skýr skilaboð með fjólubláum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hillary Clinton ásamt eiginmanni sínum Bill Clinton og meðframbjóðanda Tim Kaine þegar hún ávarpaði stuðningsmenn sína í dag.
Hillary Clinton ásamt eiginmanni sínum Bill Clinton og meðframbjóðanda Tim Kaine þegar hún ávarpaði stuðningsmenn sína í dag. vísir/getty
Hillary Clinton ávarpaði stuðningsmenn sína í dag í fyrsta sinn eftir að ljóst varð að hún hafði tapað í bandarísku forsetakosningunum fyrir Donald Trump. Clinton var klædd í svartan jakka með fjólubláum kragahornum en innan undir var hún í fjólublárri satínskyrtu. Þá var eiginmaður hennar, Bill Clinton, með fjólublátt bindi í stíl við konu sína.

Ýmsir hafa velt fyrir sér merkingu fjólubláa litarins og er fjallað um hana á vef Vanity Fair. Þar kemur meðal annars fram að sveifluríkin svokölluðu eru gjarnan kölluð „fjólubláu ríkin“ þar sem það er jú erfitt að spá fyrir um það hvort þau verði rauð, fyrir Repúblikana, eða blá, fyrir Demókrata, en fjólublár er einmitt búinn til með rauðum og bláum.

 

Í ræðu sinni í dag var Clinton tíðrætt um mikilvægi þess að bandaríska þjóðin stæði saman og horfði til framtíðar en fjólublár táknar einmitt samstöðu og framþróun.

„Við sjáum þjóðina okkar mun klofnari en við töldum að hún væri. En ég trúi enn á Bandaríkin og ég mun alltaf trúa á Bandaríkin. Ef að þið gerið slíkt hið sama þá verðum við að sætta okkur við þessi úrslit og horfa til framtíðar,“ sagði Clinton.

Aðrir sáu lit súffragettanna í litavali Clinton en hvítur, grænn og fjólublár eru litir fána súffragettanna.

Enn aðrir sáu lit meþódista þar sem Clinton er meþódisti en hjá þeim táknar fjólublár bæði göfga og yfirbót. Síðan er fjólublár litur sem notaður er í baráttunni gegn einelti í samfélagi hinsegin fólks í Bandaríkjunum.

Ræðu Clinton má sjá hér að neðan en hún byrjar þegar um sex mínútur eru liðnar af myndbandinu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×