Innlent

Björt um brotthvarf Heiðu Kristínar: „Við erum ekki með djúpa vasa“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Björt segir brotthvarf Heiðu Kristínar koma sér í opna skjöldu.
Björt segir brotthvarf Heiðu Kristínar koma sér í opna skjöldu. Vísir/Anton
Björt Ólafsdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, segir mikinn missi vera af Heiðu Kristínu Helgadóttur úr starfi Bjartrar framtíðar. Heiða Kristín lýsti yfir stuðningi við Viðreisn á Facebook síðu sinni í gær. Hún segir brotthvarf hennar koma sér í opna skjöldu, en að flokkarnir séu reknir með mismunandi hætti.

„Það kom mér talsvert á óvart og í opna skjöldu að hún væri skilin við Bjarta framtíð og það verður missir af henni. Hún hefur unnið mjög gott starf með okkur,“ segir Björt í samtali við Vísi.

„Hún nefnir engan málefnalegan ágreining eða neitt svoleiðis en það er þessi vinna sem hún er að taka að sér. Og það er kannski líka þar sem skilur á milli Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, við erum ekki með djúpa vasa og stóreignafólk á bak við okkur sem kostar framboðið. Því ekkert hægt að seilast í það neitt. Við bara rekum okkur öðruvísi,“ segir Björt en Heiða Kristín hefur aðstoðað Viðreisn við mótun stefnu sinnar síðustu misseri en er ekki á launum hjá flokknum.

„Á bak við þetta framboð er örugglega mikið af góðu fólki en auðvitað líka eins og bersýnilega sést mikið fjármagn og stórir kostunaraðilar. Við tókum meðvitaða ákvörðun um að taka ekki við fé frá fyrirtækjum og rekum okkur bara á löglegum fjárframlögum og þau leyfa ekki miklar auglýsingar eða mikið starfsmannahald eða annað,“ segir Björt.

Er þetta ekkert áfall? Hún tók náttúrulega þátt í að stofna flokkinn.

„Eins og ég segi þá er leiðinlegt að sjá á eftir henni, það er missir af henni. Hún er mjög góð í því sem hún gerir. Hún var góður félagi og við munum sakna hennar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×