Innlent

Lambakjöt frá Texas Magga olli matareitrun í brúðkaupi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Veisluþjónustan er í eigu Magnúsar Inga Magnússonar, sem er betur þekktur sem Texas Maggi.
Veisluþjónustan er í eigu Magnúsar Inga Magnússonar, sem er betur þekktur sem Texas Maggi. Vísir/GVA/Getty
Brúðkaupsveisla í Sandgerði í júlí síðastliðnum endaði illa þegar hluti veislugesta veiktust að matareitrun með meðfylgjandi uppköstum, magaverkjum og niðurgangi. Þetta kemur fram í nýjasta fréttabréfi sóttvarnalæknis.

Í fréttabréfinu kemur fram að maturinn sem borinn var á borð í veislunni hafi verið lagaður af veitingahúsi í Reykjavík og fluttur til Sandgerðis með ófullnægjandi hætti að mati Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Sóttvarnalæknir gerði tilfellaviðmiðunarrannsókn með það að leiðarljósi að finna hvaða matvæli veislunnar gætu tengst veikindunum. Var niðurstaðan sú að tengsl voru milli veikindanna og neyslu á lambakjöti og súpu sem borin voru fram í veislunni. Af einkennum veislugesta að dæma var líklega um að ræða matareitrun og telur sóttvarnalæknir að líklega hafi lambakjötið verið uppspretta veikindanna.

Brúðurin, Sigurbjörg Dís Konráðsdóttir, lýsti atvikinu í ítarlegri Facebook færslu í sumar og sagði þar að veisluþjónustan sem um ræðir heiti Mínir menn. Sú veisluþjónusta er í eigu Magnúsar Inga Magnússonar, betur þekktur sem Texas Maggi.

„Það var ekki fyrr en að fólk fór að týnast hljóðlega í burtu stuttu eftir aðalrétt löngu áður en að öll atriði voru búin sem við fórum að spyrjast fyrir hvað væri í gangi og fengum þá að vita það jú að stór hluti fjölskyldunnar okkar þurfti að fara heim vegna matareitrunar i brúðkaupsveislunni okkar !! Á þessum stæðsta degi í lífi okkar !!!!” skrifar Sigurbjörg meðal annars í júlí.

Facebook færslu Sigurbjargar má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×