Innlent

Launahækkanir lækna skili sér ekki í betri þjónustu: Ræða úttekt McKinsey

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Viðskiptaráð Íslands segir að ný úttekt McKinsey & Company á Landspítalanum sýni að þrátt fyrir að laun lækna hafi hækkað hafi gæði þjónustunnar á spítalanum ekki aukist. Forstjóri Landspítalans er ekki sammála þessari túlkun ráðsins en framkvæmdastjórn spítalans fundaði um úttektina í gær.

Viðskiptaráð segir úttektina sýna að aukin fjárframlög til Landspítalans síðustu ár hafi ekki skilað aukinni og betri þjónustu.

„Við erum að benda á að í þessari skýrlsu kemur fram að aukin fjárframlög á síðustu árum hafi fyrst og fremst farið í það að hækka laun starfsfólks spítalans umfram laun á almennum vinnumarkaði. Það hafi ekki skilað sér í meiri gæðum eða aukinni þjónustu,“ segir Björn Brynjúlfur Björsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.

Laun starfsfólks Landspítalans hafi hækkað um 31 prósent á síðutu þremur árum að meðaltali en um 20 prósent á almennum vinnumarkaði. Þrátt fyrir þetta hafi biðlistar eftir skurðaðgerðum lengst en árið 2015 biðu 4600 manns eftir skurðaðgerð samanborið við 2600 manns árið 2012, sem er um 80 prósent aukning.

„Okkur finnst umræðan vera yfirborðskennd. Stjórnmálaflokkarnir keppast við að lofa meiri fjármunum í heilbrigðiskerfið án þess að tilgreina nánar í hvað þeir fjármunir eigi að fara. Ef að fjármunirnir fara í frekari umfram launahækkanir þá teljum við að það muni ekki skila sér í betri þjónustu,“ segir Björn og bætir við að stjórnmálaöfl sem lofi auknum fjárútlátum til heilbrigðiskerfisins verði að tilgreina nánar með hvaða hætti þeim skuli varið

Forstjóri Landspítalans er ekki sammála því að hækkun launa hjá heilbrigðisstarfsfólki auki ekki gæði þjónustunnar.

„Ég er ekki sammála því hvernig þeir túlka þessa hluti. Gæði okkar voru mjög góð og við misstum þau ekki niður í hruninu og þau hafa haldist góð. Vissulega hefur helmingurinn af því fé sem hefur komið inn síðustu árin farið í laun en mönnun er hinsvegar okkar stóra vandamál til framtíðar. Það er mjög mikilvægt að tryggja það að laun og annað í starfsumhverfi sé viðunandi,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.  

Páll segir að það sé ekkert í úttektinni sem bendi til annars en að það fé sem hafi farið til Landspítalans hafi verið mjög vel nýtt.

„Hins vegar ef það á virkilega að fara gefa inn þá verður að skilgreina það mjög vel í hvað peningarnir fari svo þeir séu nýttir til að bæta heilbrigðisþjónustuna,“ segir Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×