Innlent

Trans nemendur geta nú breytt nafni sínu í Háskóla Íslands

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Breytingin á að koma til móts við trans nemendur Háskóla Íslands.
Breytingin á að koma til móts við trans nemendur Háskóla Íslands. MYND/vísir
Háskóli Íslands hefur gefið trans nemendum sínum leyfi til þess að skipta um nafn í kerfi skólans, þrátt fyrir að breyting sé ekki komin fram í Þjóðskrá.

Í frétt á innri vef Háskóla Íslands, Uglunni, segir að þetta sé gert til þess að koma til móts við nemendur svo þeir geti borið nafn sem samsvarar kynvitund þeirra þrátt fyrir að hafa ekki fengið formlega nafnabreytingu.

Prófskírteini og önnur staðfest gögn þurfa þó að vera gefin út í samræmi við nafn nemenda sem skráð er í Þjóðskrá.

Þess ber að geta að einstaklingar sem hafa leiðrétt kyn sitt eða eru í leiðréttingarferli geta sótt um að nafn og kyn verði leiðrétt í Þjóðskrá. Þeir þurfa að hafa verið í formlegu ferli í átján mánuði hið minnsta. Sækja þarf um leyfi slíkrar breytingar hjá sérfræðiteymi kynleiðréttinga innan Landspítalans.

Í Þjóðskrá eru nöfn hins vegar „kynjuð“ en með því er átt að öll nöfn eru skilgreind sem annaðhvort kvenmanns- eða karlmannsnöfn, þótt örfá nöfn falli í báða flokkana.

Þannig getur fólk sem skilgreinir sig ekki samkvæmt hinni hefðbundnu tvíhyggju kynjanna ekki fengið að skrá sig sem hvorugkyns eða „óskilgreint“ í Þjóðskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×