Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins ræddi prófkjör Sjálfstæðisflokksins í liðnum störf þingsins á Alþingi í dag. Hann sagði þúsundir hafa tekið þátt í prófkjörum flokksins og það væri sérstaða hans á meðal pólitískra afla hér á landi hvernig valið væri á lista.
„Mikill fjöldi kemur þarna að og tekur þátt í að marka listana og taka þátt í starfi flokksins,“ sagði Ásmundur en þá heyrðist í Birgittu Jónsdóttur þingmanni Pírata: „Eru þetta ekki störf þingsins?“
Til snarpra orðaskipta kom á milli Ásmundar og Birgittu í kjölfarið þar sem þingforseti þurfti ítrekað að slá í bjöllu sína og biðja um hljóð í þingsalnum.
„Þetta er öðruvísi en hjá háttvirtum þingmanni Birgittu Jónsdóttur og þar eru auðvitað ekki margir kallaðir til þegar á að velja á lista,“ sagði Ásmundur og heyrðist Birgitta spyrja hvað væri í gangi.
Forseti sló þá í bjöllu sína og Ásmundur hélt áfram:
„Svo situr bara einn í restina og velur lifenda eða dauða á listana svo ég held að þú ættir ekki að vera að hafa hátt hvernig valið er á lista þegar þú ein situr svo eftir og kroppar þá út sem þér líkar ekki við.“
Var Birgitta vægast ósátt við orð Ásmundar og hrópaði á hann „Hættu að ljúga! Hættu að ljúga!“
Forseti sló þá hátt í bjöllu sína og bað ítrekað um hljóð í þingsalnum.
„Vertu ekki að trufla mig þegar þú hendir fólki af listunum þínum út í hafsauga dag eftir dag. Við vinnum ekki þannig í Sjálfstæðisflokknum. við látum fólkið velja og svo er þetta samþykkt á stórum og almennum fundum og þar er enginn einn maður sem hendir öðrum út. Hjá okkur ríkir friður um prófkjörin.“
Hér má heyra upptöku af ræðu Ásmundar.
