Enski boltinn

Frábær byrjun Jóns Daða í Englandi heldur áfram

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jón Daði hefur byrjað frábærlega hjá Wolves.
Jón Daði hefur byrjað frábærlega hjá Wolves. vísir/getty
Jón Daði Böðvarsson heldur áfram að gera það gott fyrir Wolves, en hann var á skotskónum í 3-1 sigri Wolves á Birmingham í dag.

Che Adams kom Birmingham yfir, en Joe Mason og Danny Batth komu Wolves yfir. Jack Storer fékk svo að líta rauða spjaldið í liði Birmingham á 83. mínútu.

Jón Daði innsiglaði sigur Wolves á lokamínútu venjulegs leiktíma, en hann kláraði færið vel. Hann fór svo af velli mínútu síðar.

Wolves er með átta stig eftir fyrstu fjóra leikina, en Birmingham er með fimm stig eftir leikina fjóra.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson spilaði allan leikinn fyrir Cardiff sem gerði 2-2 jafntefli við Fulham á útivelli í dag, en þetta var annar byrjunarliðsleikur Arons í röð fyrir Cardiff eftir bekkjarsetu í upphafi móts.

Cardiff er með fimm stig eftir fjóra leiki, en Fulham er að gera vel og eru með átta stig.

Hörður Björgvin Magnússon spilaði allan leikinn í vörn Bristol sem tapaði 1-0 fyrir Newcastle á heimavelli í dag.

Dwight Gayle skoraði eina mark leiksins á 19. mínútu eftir undirbúning Mohamed Diame. Newcastle er með sex stig eins og Bristol eftir leikina þrjá.

Eggert Gunnþór Jónsson spilaði í klukkutíma þegar Fleetwood tapaði 2-1 fyrir Bolton á útivelli í dag. Sigurmarkið gerði Josh Vela sex mínútum fyrir leikslok.

Fleetwood er með fimm stig eftir fjóra leiki í ensku C-deildinni, en Bolton er á toppnum með fullt hús stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×