Lífið

Ólafur Arnalds Island Songs: Nanna Bryndís á heimaslóðum

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Næst síðasta lagið í Island Song seríu Ólafs Arnalds er ekki af verri endanum. Lagið kom út í gær, á frídegi verslunarmanna, og skartar engri annarri en Nönnu Bryndísi Hilmarsdóttur söngkonu Of Monsters and Men á hljóðnemanum. Lagið er tekið upp á hennar æskuslóðum en hún ólst upp á Garði á Reykjanesi.

Lagið heitir Particles og er falleg píanóballaða sem er einhvers staðar mitt á milli höfundarstíls Ólafs og Nönnu. Lagið og myndbandið er hljóðritað í einni töku inn í vitanum á Garði ásamt strengjakvartett. Hljómur vitans og stemning gerir upplifunina ógleymanlega.

Þetta magnaða lag má sjá hér og heyra að ofan.

Hér er Nanna 16 ára við vitann í Garði. Á þeim tíma kallaði hún sig Josie og hafði ekki hljómsveit á bakvið sig.Vísir
Mótaði sköpunargáfuna að alast upp á Garði

Baldvin Z leikstýrði myndbandinu en hann er í samvinnu við Ólaf að vinna kvikmyndina Island Songs sem mun sýna frá sjö heimsóknum Ólafs Arnalds í sumar víðs vegar um landið en á hverjum stað vinnur hann með tónlistarfólki sem tengjast þeim stað með einhverjum hætti.

Á heimasíðu Island Songs segir Nanna að það hafi mótað sköpunargáfu hennar að hafa alist upp á Garði. Hún lýsir þar endurkomu sinni til æskuslóðanna sem róandi upplifun en að hún minnist einnig varnarleysisins sem hún upplifði þar sem krakki.

„Það var ekki mikið að gera og mikill tími sem fór í einveru og í það að hugsa. Ég eyddi tíma mínum í að leika með steina við sjóinn og í það að segja draugasögur til hinna krakkanna. Stundum hjólaði ég að vitanum þegar veðrið var gott. Ég var algjörlega skrítinn krakki sem söng fyrir mig sjálfa á leiðinni í skólann, svo fór ég inn í svefnherbergi að skóladegi loknum að skrifa niður þær hugmyndir sem ég fékk á göngunni heim. Svefnherbergið mitt var minn mest skapandi staður.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×