Innlent

Margrét skammast sín og á allt eins von á að vera kölluð á teppið

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Margrét Erla segir málið snúast um þöggun í umræðunni þegar kemur að kynferðisbrotum.
Margrét Erla segir málið snúast um þöggun í umræðunni þegar kemur að kynferðisbrotum. Vísir/GVA/Vilhelm
„Mér fannst ótrúlega skrýtið að vera eitthvað að ræða Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og kynna inn þjóðhátíðarlagið þegar það eru langflestir heima að hugsa: „Hvað var hún aftur að segja í gær þarna“,“ segir Margrét Erla Maack, þáttastjórnandi Morgunútvarpsins á Rás 2, og á við viðtal við Páleyju Borgþórsdóttur lögreglustjóra í Vestmannaeyjum í fréttum Stöðvar 2 í gær.

Margrét Erla sagði í lok þáttar Morgunútvarpsins í morgun: „Minnum fólk á að nauðga bara heima hjá sér í Vestmannaeyjum.“ Hafa netverjar ýmist tekið að lasta Margréti eða lofa í kjölfar ummælanna.

Sjá einnig: Þáttastjórnandi Rásar 2 minnti fólk í Vestmannaeyjum á að nauðga heima hjá sér

Fjölmiðlakonan segir lögreglustjórann í Vestmannaeyjum hafa farið yfir strikið með ummælum sínum í kvöldfréttum í gær. Páley sagði, aðspurð um hvers vegna lögreglan í Vestmannaeyjum hygðist ekki upplýsa um kynferðisbrot á hátíðinni fyrr en að henni lokinni:

„Flest þessara brota eiga sér stað á milli tveggja einstaklinga í lokuðum rýmum þangað sem fólk fer yfirleitt sjálfviljugt. Það er bara staðreyndin.“ Páley hefur verið gagnrýnd mjög fyrir ummæli sín og fyrir þá ákvörðun að banna lögregluyfirvöldum og öðrum að tjá sig um kynferðisbrot sem gætu orðið á Þjóðhátíð í ár. Þessi hátturinn var einnig hafður á í fyrra. 

Sjá einnig: Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum telur að fólk leggi saman tvo og tvo



Páley er lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.VÍSIR/SAMSETT
„Mér fannst svo skrýtið að kommentera ekkert á það,“ segir Margrét en viðurkennir fúslega að hafa gengið of langt.

„Ég viðurkenni að þetta var alveg uber kaldhæðni sem skilar sér aldrei í útvarpi, aldrei nokkurn tímann. Þetta fór algjörlega yfir strikið. Þetta var bara í augnablikinu. Ég skammast mín fyrir að hafa sagt þetta í útvarpi,“ segir Margrét.

Vill ekki að umræðan sé látin snúast um annað en kjarna málsins

Hún segist hafa látið setninguna falla eftir að hún sá tíst frá rithöfundinum Degi Hjartarssyni sem spurði í kaldhæðni sinni hvort slagorð Þjóðhátíðar í ár verði: „Naugðum inni.“

Nokkur umræða hefur skapast um málið á Facebook og þykir Margréti ýmsir þar snúa út úr orðum hennar. 

„Einn spyr: „Er hún að hvetja til nauðgana?“ Auðvitað fokking ekki,“ segir Margrét. 

„Svo er búið að snúa þessu í landsbyggðin á móti Reykjavík. En þetta snýst ekki um það. Þetta snýst almennt um kynferðisbrot og hvernig er á þeim tekið, hvernig er um þau fjallað og hvernig þau eru þögguð niður.“ 

Sjá einnig: Sjö af níu umdæmum svara fjölmiðlum

Þá telur Margrét þann málflutning að hún hugsi meira um fréttirnar sem hún getur sagt verandi fjölmiðlakona heldur en fórnarlömb fáránlegan. 

„Ég verð meira að segja hætt að vinna í fjölmiðlum þegar verslunarmannahelgin er og ég er sjálf fórnarlamb nauðgunar.“ 

Haraldur Johannessen er ríkislögreglustjóri. Hann er ósammála Páleyju Borgþórsdóttur um að upplýsa ekki um kynferðisbrot.Vísir/GVA
Reiði fólks yfir ummælum fjölmiðlakonunnar gerir hana að einhverju leyti ánægða. „Ég er mjög ánægð með að þessi díalógur sem er í gangi sé að fólki finnist þessi ummæli almennt hafa farið yfir strikið. Það á algjörlega rétt á sér. Fólk er sammála því að kynferðisofbeldi sé ógeðslegt og að það sé sumt sem megi ekki grínast með. Það er jákvætt og ég þarf að taka mig sjálf á þar. En mér finnst leiðinlegt ef fólk ætlar að snúa þessu upp í eitthvað annað.“

„Tökum þessa reiði og verum á móti öllu kynferðisofbeldi.“

Erfitt að setja tappann í 

Margrét segist aðspurð allt eins von á því að verða tekin á teppið af yfirmönnum Ríkisútvarpsins.

„Mér fyndist það bara allt í lagi og sjálfsagt. Mér þætti líka gaman að vita hvernig yfirmenn vilja að við tökum umræðuna um kynferðisbrot.“

Fjölmiðlakonan gagnrýnir mjög orð Páleyjar. „Meira að segja ríkislögreglustjóra fannst hún fara yfir strikið.“ Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri sagði í samtali við RÚV að hann teldi að lögregluembætti ættu að upplýsa almenning um kynferðisbrot. 

Margréti þykir undarlegt að heyra lögreglustjóra, einn handhafa framkvæmdarvalds sem tryggja á á öryggi borgarana í landinu, segja að ekkert sé hægt að gera í brotum sem verða í heimahúsum. Það sé sláandi.

„Ég brenn fyrir þessum málaflokki. Ég á ótrúlega erfitt með að setja tappa í það þó ég vinni núna í afleysingum á RÚV,“ segir Margrét.


Tengdar fréttir

Hunsar þöggunartilmæli lögreglustjóra

Lögreglan í Vestmannaeyjum mun ekki upplýsa um tilkynnt kynferðisbrot á Þjóðhátíð fyrr en nokkur tími er liðinn frá hinum meintu brotum. Lögreglustjórinn segir þetta auka líkur á góðri frásögn. Fagaðilar segja rétt að upplýsa um




Fleiri fréttir

Sjá meira


×