
Því muni lögreglan í Vestmannaeyjum ekki upplýsa fjölmiðla jafnóðum um tilkynnt kynferðisbrot. Það er sama stefna og var sett í fyrra, sem var afar umdeild.
Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri segir þetta gert til að vernda brotaþola frá ytra álagi og auka líkur á góðri frásögn.
„Síðar þegar það er tímabært og skaðar ekki rannsóknarhagsmuni er eðlilegt að upplýsa um fjölda tilkynntra mála en eigi að vera mark takandi á slíkum upplýsingum þarf tíminn að fá að líða,“ stendur í svari Páleyjar við fyrirspurn Fréttablaðsins. Hún tekur aftur á móti ekki fram hversu margir dagar þurfi að líða.
Páley hafði samband við Neyðarmóttöku Landspítalans á dögunum og bað um að sama verklag yrði viðhaft þar. Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri Neyðarmóttökunnar, segir stefnu spítalans vera þá að svara fyrirspurnum fjölmiðla og upplýsa um fjölda mála, skiptir þá ekki hvers eðlis málið er. Því verði ekki orðið við beiðni lögreglustjórans.
Hún bendir á að samskiptamiðlar hafi oft mun meiri áhrif á rannsóknarhagsmuni en tilkynningar viðbragðsaðila um brot.
„Það eru oft meiri líkur á að umfjöllun á samskiptamiðlum hafi áhrif á rannsóknarhagsmuni. Til dæmis getur það haft áhrif á brotaþola og ákvörðun hans um að kæra ef vinir tjá sig um málið á Facebook,“ segir Hrönn.
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, telur rangt að segja ekki frá kynferðisbrotum.
„Ég hef ekki breytt skoðun minni frá því í fyrra og segi enn þá að þetta verklag verndi ekki þolendur kynferðisofbeldis. Þessi framgangur er á skjön við það sem tíðkast í öðrum málum. Ég veit að flestir fagaðilar eru sammála um að það sé rétt að veita þessar upplýsingar,“ segir Guðrún.
Hún bætir við að gaman væri að vita hvort lögreglustjórinn ætlaði ekki að segja frá neinum öðrum brotum sem gætu átt sér stað á hátíðinni.
Í ársskýrslu Stígamóta frá árinu 2015 kemur fram að átján kynferðisbrot á útihátíðum hafi verið tilkynnt til þeirra í fyrra. Þar af voru tólf nauðganir.
„Þetta er ástæðan fyrir því að við látum okkur þetta mál varða.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. júlí