Innlent

Bæjarstjóri Ölfuss: „Kjaftshögg að aflaheimildirnar fari“

Birgir Olgeirsson skrifar
HB Grandi hefur fest kaup á aflaheimildum upp á tæpa fjóra milljarða króna af Hafnarnesi VER í Þorlákshöfn.
HB Grandi hefur fest kaup á aflaheimildum upp á tæpa fjóra milljarða króna af Hafnarnesi VER í Þorlákshöfn. Vísir
„Við höfðum engan ávæning af þessu,“ segir Gunnsteinn Ómarsson, bæjarstjóri Ölfuss, um  kaup HB Granda á aflahlutdeildum í bolfiski sem svara til tæplega 1.600 þorsígildistonnum á tæpa fjóra milljarða króna af útgerðinni Hafnarnes VER í Þorlákshöfn. HB Grandi segist vera með þessum kaupum að tryggja afla til vinnslu á Vopnafirði  án þess að skerða afla annarra starfsstöðva félagsins.

Gunnsteinn Ómarsson.
Gunnsteinn segir bæjarfulltrúa Ölfuss í sumarfríi og er áætlað að reyna að koma bæjarstjórn saman í næstu viku á fund til að fara yfir málið. „Við vissum af því að fjárhagsstaðan væri erfið en það hafði ekkert verið kynnt fyrir okkur í sjálfu sér. Þetta er reiðarslag að aflaheimildirnar fari héðan,“ segir Gunnsteinn en í tilkynningunni frá HB Granda kemur fram að með þessum viðskiptum greiði Hafnarnes VER úr skuldamálum félagsins sem stofnað var til með kaupum á aflaheimildum.

Unnið hafi verið að lausn á skuldamálum félagsins á undanförnum árum, en við hrunið jukust skuldir þess verulega. Er sala aflaheimildanna sögð nauðsynlegur þáttur til að unnt verði að halda áfram rekstri félagsins, en með breyttum áherslum.

„Fljótt á litið gætu þetta verið 30 störf. Bæði sjómannsstörf og störf í landi,“ segir Gunnsteinn en bætir við: „ Svo veit maður ekki hvaða áform þessir aðilar hafa, eigendur Hafnarness,  væntanlega verður það fyrirtæki enn til staðar og hvaða áform þau hafa um rekstur á því fyrirtæki, það er erfitt að segja nokkuð um þetta en auðvitað er þetta kjaftshögg að aflaheimildirnar fari.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.