Lögreglu- og tollayfirvöld vinna nú eftir áherslum byggðum á greiningarvinnu Europol. Þetta þýðir að Europol lætur yfirvöldum hér á landi í té upplýsingar um helstu áherslur í löggæslu í Evrópu og hvaða brot séu mest áberandi.
„Þetta gefur þeim sýn á hvaða brot áherslan skuli vera á hverju sinni. Þá er hægt að byggja upp sérþekkingu á áherslusviðunum. Europol hefur þó ekki neitt boðvald yfir yfirvöldum hér á landi en þetta er frekar þjónusta sem er veitt,“ útskýrir Karl Steinar en hans hlutverk er meðal annars að fræða yfirvöld á Íslandi um nýjar áherslur.

Meginástæða breytinganna er sú að brotastarfsemi í Evrópu og á Íslandi hefur tekið miklum breytingum síðustu ár. Í dag þarf að horfa á stóru myndina.
„Flækjustig rannsókna hjá lögreglunni er miklu hærra en áður hefur verið og kemur til með að verða flóknara. Þetta krefst meiri sérþekkingar, meðal annars á sviði netglæpa. Í dag er brotastarfsemin miklu þyngri og erfiðari,“ segir hann.
Karl Steinar segir að síðustu ár hafi smátt og smátt verið tekið skref í átt að þessum breytingum hjá lögregluyfirvöldum. Ekki er lengur talað um fíkniefnadeild innan lögreglunnar enda er engin ein sérstök deild fyrir þau mál. Í dag heitir rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu Rannsóknir á skipulagðri brotastarfsemi en sú deild sér um mun fjölbreyttari verkefni.
„Í dag eru fíkniefnabrotin samofin fleiri málaflokkum og er lögð áhersla á brotin í stærra samhengi. Fíkniefnamál ein og sér hafa ekki verið rosalega mörg í gegnum tíðina en þau eru samofin ýmsu öðru, til dæmis peningaþvætti, fjármálabrotum, mansali og fleiru,“ segir hann.

Karl Steinar segir birtingarmynd skipulagðrar brotastarfsemi í Evrópu vera þá sömu og á Íslandi. „Í grunninn eru þetta brotahópar sem vinna á ákveðnum sviðum og nýta sér tækni til að fremja brotin. Með aukinni tækni eru brotahópar farnir að kaupa sér þekkingu sérfræðinga.“
Hann segir að lögð sé áhersla á kynferðisbrot á netinu. Einnig sé lögð mikil áhersla á mansalsmál og er það meðal annars ástæðan fyrir því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu setti upp einingu sem hefur verið að byggja upp sérþekkingu á því sviði.
Norðurlöndin vinna svipað
Karl Steinar segir að umræddar breytingar muni koma til með að taka tíma en aðlögunarferlið sé nú þegar farið vel af stað. Hann segir lögregluyfirvöld á Norðurlöndunum öll vinna eftir svipuðum áherslum. „Þetta mun taka tíma en mun gera lögreglunni kleift að ná betri árangri í því að átta sig á heildarmyndinni.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu segist í samtali við Fréttablaðið mjög ánægð með breytingarnar.