Innlent

Níu mánaða fangelsi fyrir að hafa 42 milljónir af Alzheimer-sjúklingi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hinn aldni átti ekki fyrir tíma hjá tannlækni þegar hann fór í skoðun á Hornafirði.
Hinn aldni átti ekki fyrir tíma hjá tannlækni þegar hann fór í skoðun á Hornafirði. vísir/pjetur
Rúmlega fimmtugur karlmaður var í Héraðsdómi Austurlands á dögunum dæmdur í níu mánaða fangelsi fyrir misneytingu. Fullnusta sex mánaða refsingarinnar fellur niður haldi maðurinn almennt skilorð í tvö ár. Dómurinn var fjölskipaður.

Brot mannsins fólst í því að hafa fengið níræðan mann, sem var með Alzheimer og vangetu til að átta sig á tölum, til að ráðstafa alls 42 milljónum króna inn á reikning sinn með þremur millifærslum. Talið var að maðurinn hefði ekki getað áttað sig á þýðingu ráðstafanna eða um hve mikið fé var að ræða.

Mennirnir tveir þekkjast mjög vel og hafa gert í fleiri áratugi en hinn sakfelldi var í sveit hjá brotaþola. Að sögn ákærða og eiginkonu hans vörðu þau öllum sínum fríum í útilegu á jörð brotaþola og höfðu gert það í mörg ár.

Upphæðin var „kannski tíu þúsund“

Umræddar millifærslur áttu sér stað á haustmánuðum ársins 2014. Þá var brotaþoli vistmaður á hjúkrunarheimili en hann hafði flutt þangað ásamt bróður sínum tæpu ári áður.

Brotaþoli bar vitni fyrir dómi. Hann kannaðist við það að hafa farið með sakborningi í bankann en að hann vissi ekki hve mikið hann hefði átt á reikningi sínum. Þar kom fram að honum þótti hans fyrri vinnumaður eiga inni laun vegna vinnu hans á jörð sinni. Þá hafi hann litið á millifærsluna sem lán.

Í dómnum kemur fram ljóst var að brotaþoli byggi við verulega minnisskerðingu. Til að mynda taldi hann að hann byggi enn á jörð sinni, árið væri 1962 og að upphæðin sem hann lagði inn á ákærða hefði verið „kannski tíu þúsund“.

Eiginkona ákærða gaf skýrslu fyrir dómi. Þar sagði hún að eiginmaður hennar liti á þetta svo að hann stæði í skuld við brotaþola enda hefði hann alltaf talið skuldina fram á skattframtali. Þau hjónin væru skuldug en eigi svo að þau stæðu ekki í skilum enda væri eiginmaður hennar „hátekjumaður“. Umrætt fé hefði verið nýtt til að greiða niður skuldir af húsbíl þeirra, erlent húsnæðislán og yfirdráttarskuld.

Framburður hins sakfellda fyrir dómi var eilítið á skjön við framburð hans hjá lögreglu. Hjá lögreglu sagði hann að féð væri gjöf frá brotaþola, sem hinn aldni maður bauð að fyrra bragði, en fyrir dómi var það lán vegna fjárhagsvandræða ákærða. Einnig hafi hann sagt hjá lögreglu að upphæð fyrstu millifærslunnar, 25 milljónir, hefði komið frá honum sjálfum en fyrir dómi þá höfðu þeir ákveðið fjárhæðina í sameiningu.

Framburðurinn stöðugur en ótrúverðugur 

Líkt og áður segir var dómurinn fjölskipaður en meðal dómenda var sérfróður meðdómsmaður. Í niðurstöðu dómsins segir að ákærða hafi verið það fullljóst að hann var að þiggja fé af brotaþola sem nam langstærstum hluta af bankainnistæðum hans. Ákærði hefði ekki gefið neina haldbæra skýringu á því hví honum hefði þótt eðlilegt að þiggja féð af manninum sem lán eða gjöf.

„Í framburði ákærða, sem gaf skýrslu hjá lögreglu mánuði fyrr en eiginkonan, og í samantekt sem hann lagði fram við það tækifæri, kom hins vegar skýrt fram að ákærði leit fremur svo á að um gjöf væri að ræða, þótt hann segðist geta endurgreitt brotaþola hluta fjárins ef hann þyrfti á því að halda. Bendir þetta til þess að ákærði leitist nú fyrir dómi við að fegra sinn hlut er hann heldur því fram að ávallt hafi staðið til að endurgreiða féð,“ segir orðrétt í dómnum.

Sjá einnig: Hinn níræði átti ekki fyrir tíma hjá tannlækni

Dómurinn taldi framburð ákærða og eiginkonu hans, þó stöðugur væri, ekki vera trúverðugan og jafnvel ótrúverðugan um ýmis mikilvæg atriði. Til að mynda væri ótrúlegt að þeim hafi ekki verið ljós hrakandi vitræn geta brotaþola og takmarkanir hans hvað tölur snertir.

Hinn sakfelldi á ekki sakaferil að baki. Brot hans beindist gegn háöldruðum manni sem gat ekki spornað við verknaðinum vegna sjúkleika síns. Dómurinn taldi manninn ekki eiga sér nokkrar málsbætur. Því var refsing ákveðin níu mánuðir en refsiramminn fyrir misneytingu er tveggja ára fangelsi.

Í ljósi þess að um fyrsta brot var að ræða var refsingin skilorðsbundin. Að auki var hinum sakfellda gert að endurgreiða milljónirnar 42 og greiða allan máls- og sakarkostnað, alls rúmar tvær milljónir króna.

Dóm Héraðsdóms Austurlands má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×