Lífið

Ferðabloggarar kolféllu fyrir Íslandi: „Ég trúi ekki eigin augum“ - myndband

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ferðabloggarar með mörg þúsund fylgjendur dásama Ísland í nýjasta myndbandinu sínu. Bloggararnir ferðuðust hingað frá Dubai og ákváðu að koma hingað til þess að fá frí frá stórborgarlífinu. Eftir ferðina er íslenskur bjór í uppáhaldi.

Jeff Johns og Anne Mugnier eru par sem elskar að ferðast og halda þau því úti sérstöku ferðabloggi undir nafninu „What doesn‘t suck?“ eða „Hvað er ekki glatað?“ Parið er búsett í Dubai og birtir gjarnan ferðaráð og myndbönd þaðan en þau ferðast einnig vítt og breitt um heiminn.

Nú fyrr í sumar varð Ísland fyrir valinu og má segja að parið hafi svo sannarlega ekki orðið fyrir vonbrigðum. Þau skoðuðu Reykjavík og ferðuðust um Snæfellsnes meðal annars en þau höfðu aðeins 48 stundir hér á landi og nýttu tímann greinilega vel.

„Ég trúi ekki eigin augum,“ sagði Jeff þegar þau stöðvuðu bílinn til þess að ganga upp að fossi. „Þetta er ótrúlegasta sýn sem ég hef séð,“ sagði Anne og gekk upp að fossinum þrátt fyrir að vera lofthrædd með eindæmum.

Þá virðist parið hafa kolfallið fyrir fleiru en náttúrunni því þau birtu mynd á Instagram síðu sinni skælbrosandi með bjórinn Einstök og yfirskriftinni: ..nýr uppáhalds bjór.

Parið var hér þegar Ísland var að hefja leik á Evrópumótinu í knattspyrnu og má sjá þau í myndbandinu fagna með Íslendingum á EM-torginu á Ingólfstorgi. 

Myndbandið má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×