Innlent

Frambjóðendur þurfa að skila inn meðmælum á morgun

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Alls hafa fjórtán boðað framboð til embættis forseta Íslands.
Alls hafa fjórtán boðað framboð til embættis forseta Íslands. vísir/gva
Yfirkjörstjórnir munu á morgun veita undirskriftum væntanlegra forsetaframbjóðenda viðtöku. Hver frambjóðandi þarf að skila minnst 1.500 undirskriftum úr öllum landsfjórðungum. Framboð til embættis forseta Íslands rennur úr 21. maí næstkomandi.

Alls eru fjórtán manns í framboði sem þýðir að yfirkjörstjórnir gætu þurft að yfirfara að minnsta kosti 21 þúsund undirskriftir á næstu dögum. Í flestum kjördæmum þurfa frambjóðendur að skila inn frumrit meðmælendalista á morgun, áður en yfirkjörstjórn hvers kjördæmis gefur út vottorð um meðmælendur úr kjördæminu.

Stjórnir munu veita listunum viðtöku í Ráðhúsi Reykjavíkur á milli klukkan 13 og 15, Íþróttahúsinu Kaplakrika í Hafnarfirði á milli klukkan 13 og 15, Héraðsdómi Vesturlands í Borgarnesi á milli klukkan 10 og 12, Héraðsdómi Suðurlands á milli klukkan 10 og 12, og í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri á þriðjudag á milli klukkan 9 og 14.

Framboðum til forsetakjörs þarf svo að skila til innanríkisráðuneytisins eftir viku, eða fyrir miðnætti föstudaginn 20. maí, ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að meðmælendur séu kosningabærir. Einni viku síðar, eða 27. maí, mun það liggja fyrir hverjir verða í kjöri, að því er segir á kosningavef innanríkisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×