Innlent

Landsnet kærir úrskurð

Svavar Hávarðsson skrifar
Reykjaneslína – möstur í Suðurnesjalínu 2 verða sömu gerðar. mynd/landsnet
Reykjaneslína – möstur í Suðurnesjalínu 2 verða sömu gerðar. mynd/landsnet

Landsnet hefur kært til Hæstaréttar úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem hafnaði aðfararbeiðnum fyrirtækisins um eignarnám á landhluta úr fjórum jörðum á Reykjanesi vegna lagningar Suðurnesjalínu 2.



Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti. Héraðsdómur telur varhugavert, vegna óafturkræfra umhverfisáhrifa, að fallast á kröfu Landsnets áður en Hæstiréttur hefur leyst úr ágreiningi um lögmæti eignarnámsheimildarinnar sem og ágreiningi um lögmæti leyfisveitinga Orkustofnunar og sveitarfélagsins Voga vegna línubyggingarinnar.

Ákvörðun um eignarnám vegna jarðanna fjögurra lá fyrir í febrúar 2014. Héraðsdómur staðfesti ákvörðun um eignarnám í júní 2015.

Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar og hefst málflutningur í apríl.

Framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2 hefur legið fyrir um nokkurt skeið frá sveitarfélögunum Grindavík, Hafnarfjarðarbæ, Reykjanesbæ og Vogum, ásamt leyfi Orkustofnunar fyrir byggingu og rekstri línunnar og áætlaði Landsnet að hefja framkvæmdir á næstu vikum. Búið er að semja við Íslenska aðalverktaka um undirbúningsvinnu sem á að ljúka í haust og ráðgert að reisa línuna sumarið 2017.



Í tilkynningu Landsnets segir að umhverfismat vegna framkvæmdanna var samþykkt með skilyrðum árið 2009. Í ársbyrjun 2011 var ákveðið að byrja á styrkingu flutningskerfisins á Reykjanesi þar sem Suðurnesjalína 1 er fulllestuð.

Nýja línan fylgir að mestu Suðurnesjalínu 1 frá Hafnarfirði að Rauðamel, nema austast þar sem hún á að liggja töluvert fjær byggð í Hafnarfirði. Við val á línuleið var orðið við tilmælum sveitarfélaga og helstu fagstofnana um að reisa nýju línuna í núverandi mannvirkjabelti, þar sem eru fyrir Suðurnesjalína 1 og Reykjanesbraut, segir Landsnet. –



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×