Innlent

„Menn hafa ekkert að gera með hníf á almannafæri“

Ásgeir Erlendsson skrifar
Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir það morgunljóst að menn hafi ekkert með hníf að gera í miðbæ Reykjavíkur um helgar. Karlmaður sem stunginn var aðfaranótt sunnudags í Vesturbænum liggur enn þungt haldinn á gjörgæslu.

Árásin átti sér stað aðfaranótt sunnudags á Sæmundargötu og rannsókn málsins miðar vel að sögn Árna Þórs Sigmundssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns. Enn er unnið að því að yfirheyra vitni og lögregla getur ekki tjáð sig um hvort maðurinn sem handtekinn var hafi játað sök.

Meintur árásarmaður var í gær úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á miðvikudag en fórnarlambinu er enn haldið sofandi. Þrátt fyrir tíðar fréttir af hnífamálum, merkir lögreglan ekki aukningu í slíkum málum hér á landi. Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að fyrir um sex árum hafi lögregla merkt aukningu í málum tengdum hnífum og þá hafi verið reynt að grípa í taumana.

„Við ákváðum að taka reglurnar betur saman. Í vopnalögunum máttu vera með eggvopn með þér í tengslum við vinnu. Við vorum svolítið grimmir á því og tókum fyrir það ef menn voru að þvælast með þetta utan vinnu, niðrí bæ um helgar. Við tökum þessa hnífa bara af fólki. Ef við fáum útkall þar sem talað er um að hnífur sé í spilinu. Þá nálgumst við verkefnið varfærnislega og fáum sérsveitina með okkur til að yfirbuga mennina.“ Segir Jóhann.

Skilaboð lögreglu eru einföld.

„Venjulegur maður er ekki með hníf á sér. Þú hefur ekkert að gera með hníf niðrí bæ eða á almannafæri. Bara alls ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×