Innlent

Unnið að stofnun flokks sem leggst gegn fjölmenningu og byggingu mosku á Íslandi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ekkert verður af byggingu moskunnar í Sogamýri fái Íslenska þjóðfylkingin einhverju ráðið.
Ekkert verður af byggingu moskunnar í Sogamýri fái Íslenska þjóðfylkingin einhverju ráðið. VÍSIR

Svo virðist sem hægrisinnuðum stjórnmálaflokkum á Íslandi muni fjölga nái hugmyndir aðstandenda Íslensku þjóðfylkingarinnar fram að ganga en gert er ráð fyrir því að blásið verði til stofnfundar fljótlega.

Vísir greindi frá því í dag að Hægri grænir, sem buðu fram til Alþingis árið 2013, hafi samþykkt einróma að sameinast flokknum.

Sjá einnig: Hægri grænir ganga til liðs við Íslensku þjóðfylkinguna

Í tilkynningu segir að Hægri grænir hafi ekki þar verið einir á ferð, heldur að sama skapi fleiri hópar og einstaklingar. Á Facebook-síðu Íslensku þjóðfylkingarinnar segir að flokkurinn sé afrakstur viðræðna nokkurra einstaklinga á hægri væng stjórnmálanna undanfarin misseri. Markmiðið sé „að sameina þjóðholla Íslendinga undir merkjum flokksins.“

Stefnuskrá flokksins

Þar stendur einnig að bráðabirgðastjórn flokksins skipi þrír einstaklingar fram að næsta aðalfundi flokksins; Helgi Helgason sem er í forsvari og talsmaður, Kjartan Örn Kjartansson og Guðmundur Jónas Kristjánsson.

Í stefnuskrá flokksins, sem birt var í dag og dreift til fjölmiðla, kemur fram að Íslenska þjóðfylkingin vill meðal annars endurskoða aðild Íslands að EES og ganga úr Schengen samstarfinu. Flokkurinn hafnar hugmyndum um fjölmenningu hér á landi og mun berjast gegn því að moskur verði reistar hér á landi.

„Íslenska þjóðfylkingin vill standa vörð um fullveldi og sjálfstæði Íslands, íslenska þjóðmenningu, tungu og siðinn í landinu. Grunnstefna flokksins er einstaklingsfrelsi, takmörkun ríkisafskipta, gagnsæjan sjálfbæran ríkisrekstur,“ segir í manífestói flokksins sem vill að sama skapi aukið beint lýðræði og aukna áherslu á málefni aldraðra og öryrkja.

Þá vill flokkurinn að bann verði lagt við búrkum og skólum íslamista hér á landi. Flugvöllurinn skal vera áfram þar sem hann er. Þá vill flokkurinn almenna skuldaleiðréttingu íbúðalána, hækkun persónuafsláttar og nýjan gjaldmiðil. 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.