Íslenska landsliðskonan Katrín Ómarsdóttir og félagar hennar í ensku úrvalsdeildarliðinu Doncaster Rovers Belles höfðu ekki heppnina með sér þegar dregið var í ensku bikarkeppninni í dag.
Doncaster Rovers Belles mætir ensku meisturunum í Chelsea í sextán liða úrslitum keppninnar.
Katrín er að hefja sitt fyrsta tímabil með Doncaster Rovers Belles en hún kom þangað frá Liverpool þar sem hún spilaði í þrjú tímabil á undan.
Chelsea vann tvöfalt á síðasta tímabili og endaði meðal annars tveggja sigurgöngu Katrínu og félaga í Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.
Chelsea tryggði sér bikarinn með því að vinna 1-0 sigur á Notts County en það var fyrsti úrslitaleikur kvenna sem fór fram á Wembley-leikvanginum í London.
Gömlu liðsfélagar hennar Katrínar í Liverpool drógust á móti Manchetser City í sextán liða úrslitunum.
Bikarleikur Doncaster Rovers Belles og Chelsea fer fram 20. mars næstkomandi eða aðeins fjórum dögum áður en keppni í ensku úrvalsdeildinni hefst. Í fyrstu umferðinni tekur lið Doncaster Rovers Belles einmitt á móti Chelsea Ladies á heimavelli sínum.
Katrín Ómarsdóttir er nú stödd í Portúgal með íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta sem hefur keppni í Algarve-bikarnum á miðvikudaginn. Katrín er að koma aftur inn í liðið eftir smá fjarveru.
