Innlent

Fengu níu manna Benz frá Alþjóða ólympíunefndinni með styrk frá Bjarna

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Þriggja milljóna styrkur frá fjármálaráðherra til ÍSÍ var vegna innflutnings sendiferðabíls sem Alþjóðlega ólympíunefndin gaf sambandinu.
Þriggja milljóna styrkur frá fjármálaráðherra til ÍSÍ var vegna innflutnings sendiferðabíls sem Alþjóðlega ólympíunefndin gaf sambandinu. Vísir/Valli/EPA/Vilhelm
Þriggja milljóna styrkur af ráðstöfunarfé fjármálaráðherra sem rataði til Íþrótta- og ólympíusambands Íslands var til að standa straum af kostnaði við innflutning á níu manna Merceds-Benz bifreið frá Alþjóða ólympíunefndinni. Þetta segir Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ.

Sjá einnig: Sjáðu í hvað ráðherrar veita fé

Fréttablaðið greindi frá styrknum sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, veitti ÍSÍ vegna bílakaupanna á miðvikudag. Þar kom fram að styrkurinn hafi hljóðað upp á 3.226.417 krónur. 

„Þetta er bifreið sem var sótt um fyrir mörgum árum síðan hjá Alþjóða ólympíunefndinni og skilyrði fyrir því að við fengum þessa bifreið, var eins og hjá öllum öðrum ólympíunefndum sem fengu svona bifreið, var niðurfelling á tollum en það er ekki heimilt hér þannig við fengum þennan stuðning til þess að greiða aðflutningsgjöldin og það,“ segir Líney.

„Við notum þetta þegar við erum með ráðstefnur og skutl og þvíumlíkt,“ segir Líney. „Þetta er níu sæta bíll en við tökum sætin úr og flytjum á milli, ef við erum með ráðstefnur, og flytjum merkingar og dót í honum.“ Hún segir að þess á milli sé bíllinn geymdur í Laugardalnum, við skrifstofur ÍSÍ.

Samkvæmt ökutækjaskrá á ÍSÍ einn annan bíl. Það er Toyota Land Cruiser 120, árgerð 2007, sem Líney sjálf hefur til umráða.

„Það er það sem ég samdi um þegar ég réð mig hingað inn, sem launakjör bara,“ segir hún.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×