Lífið

Fyrsta spurningin til læknisins var „missi ég hárið?“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Jenný Þórunn Stefánsdóttir segir að þrátt fyrir að hún hafi verið að berjast fyrir lífi sínu hafi útlitið einnig skipt máli. Hún fjallaði í dag um útlit, hármissi og möguleika ungra kvenna til að líta vel út.
Jenný Þórunn Stefánsdóttir segir að þrátt fyrir að hún hafi verið að berjast fyrir lífi sínu hafi útlitið einnig skipt máli. Hún fjallaði í dag um útlit, hármissi og möguleika ungra kvenna til að líta vel út.
„Það er smá kaldhæðni í því að þegar maður er að berjast fyrir lífi sínu að þá sé maður að hugsa um útlitið. En það skiptir máli fyrir tvítuga stúlku. Ég man svo sterkt eftir því þegar ég fékk fréttirnar frá lækninum um veikindi mín og hvað biði mín að mín fyrsta spurning til læknanna var „missi ég hárið?“. Það af öllu,“ sagði Jenný Þórunn Stefánsdóttir sem í október 2012 greindist með krabbamein.

Hún fjallaði á ráðstefnu Krafts krabbameinsfélags í Háskóla Íslands í kvöld um útlit, hármissi og möguleika ungra kvenna til að líta vel út, þrátt fyrir afleiðingar lyfjameðferðar.

Dagurinn sem rennur seint úr minni

Jenný segir það hafa tekið á að missa hárið. Dagurinn sem hún ákvað að raka það af hverfi henni seint úr minni. Hún hélt úti dagbók í veikindunum og las brot úr henni á fundinum í kvöld:

„Ýmislegt hefur gengið á síðan ég skrifaði seinast. Á miðvikudaginn tók ég þá ákvörðun að raka fallega, dökka hárið mitt. Átakanlegt skref sem ég tók þennan dag og hágrét á meðan þessu stóð. Ekki var það að hjálpa að hárkollan var ekki komin þrátt fyrir að hafa verið löngu búin að panta hana. Ég fékk lánaða hárkollu sem ég átti að vera með en hún var svo langt frá því að vera lík mínu hári. Annars er ég búin að vera dugleg að nota húfur og slæður en ég er svo langt frá því að vera sátt með mig núna. Ég finn fyrir miklu óöryggi og allt sem var létt fyrir mér virðist vera miklu erfiðara. Á hverjum degi tekst ég á við ný verkefni, bæði andlega og líkamlega. Svo sannarlega stigið mörg stór skref og erfið og ég veit þetta er svo langt frá því að vera búið,“ skrifaði Jenný í dagbókina sína 12. nóvember 2012.

Vildi ekki að fólk myndi líta á mig sem sjúkling

Nokkrum dögum síðar fékk hún fallega hárkollu sem hún var ánægð með, og var hún sem plástur á höfði Jennýjar næstu mánuði, að eigin sögn. „Það var hægt að gera allt við hana; krulla, slétta og svo framvegis. Ég gekk svo langt að fá mér hárlengingar í hana því þetta átti að vera alveg eins og hárið mitt,“ segir hún og bætti við að hún hafi einnig fengið sér húðflúr á augabrúnirnar, svokallaða varanlega förðun.

„Ég reyndi að gera mitt besta til að líta þokkalega út og ég vildi alls ekki að fólk myndi líta á mig sem einhvern sjúkling,“ segir Jenný. „En þegar maður er að takast á við virkilega erfið veikindi varð hárleysið sem sandkorn í þessu öllu saman.“  

Óvæntur stuðningur á lokametrunum

Jenný segir það hafa verið mikið áfall að greinast með krabbamein. Bæði fyrir hana sjálfa en jafnframt fyrir fjölskyldu hennar og vini. Hún ákvað þó að takast á við þetta verkefni með jákvæðni og æðruleysi. „Manna hætti að vinna um tíma og fylgdi mér sem klettur í gegnum þetta ferli. Pabbi var aldrei langt undan og vinkonur mínar veittu mér mikinn stuðning. Ég var aldrei ein í þessu. Þetta var verkefni okkar allra.“

Óvæntur stuðningur barst svo á lokametrunum þegar Jenný kynntist kærasta sínum. „Það er fyndið að segja frá því í dag að það fyrsta sem hann sagði við mig þegar við hittumst fyrst var „mikið rosalega ertu falleg“. Þarna hafði hann ekki hugmynd hver ég væri, að ég væri að berjast með krabbamein, með hárkollu og ekki eitt stingandi strá á líkamanum.“

Tilhugsunin um að verða hugsanlega aldrei móðir nær óbærileg

Það sem Jennýju þótti ekki síður erfitt var að vita það að hugsanlega gæti hún ekki átt börn eftir lyfjameðferðina. Það var verkefni sem hún vissi ekki hvernig hún átti að takast á við. „Ég var ekki bara að g greinast með krabbamein og að missa hárið, heldur fékk ég að vita það áður en ég byrjaði í fyrstu meðferðinni að það væri óljóst hvort ég myndi eignast börn í framtíðinni. Eina úrræði mitt á þeim tíma var að fá mánaðarlega sprautu sem átti að verja eggjastokkana,“ segir hún.

„Krabbameinið var verkefni sem ég ætlaði að klára en hins vegar að geta mögulega ekki átt börn í framtíðinni var eitthvað sem ég vissi ekki hvernig ég átti að díla við. Ég hef alltaf sagt að helmingurinn af minni baráttu var að takast á við þá sorg.“

Hálfu ári eftir síðustu lyfjagjöfina varð Jenný ólétt. Heilbrigður drengur, Stefán, kom svo í heiminn hinn 14. janúar 2015. Hún segir hann hafa gert lífið yndislegt og hjálpað sér mikið með bata. „Ég er örugglega ein af fáum konum á Íslandi sem var með hárkollu í fæðingunni,“ sagði Jenný og hló, en hárkollan fékk að fjúka um fjórum mánuðum eftir að Stefán fæddist. „Ég var ekki lengi að setja í mig hárlengingar því stutt hár ætlaði ég sko ekki að vera með. En ég get vonandi hlegið af þessari vitleysu eftir nokkur ár.“  

Lífið eftir krabbameinið

Hún segir lífið eftir krabbameinið ekki vera það sem hún hafi verið undirbúin fyrir. „Ég hef alltaf hugsað að krabbameinið væri verkefni sem ég myndi kveðja að síðustu meðferð lokinni. En það er ekki alveg þannig. Maður tekst á við alls konar tilfinningar. Kvíða gagnvart því að greinast aftur og eftirkvilla sem maður átti ekki alveg von á. En hugurinn ber mann hálfa leið og með réttu hugarfari eru manni allir vegir færir. Þetta hefur allt saman verið rússíbanareið, gleði, sorg, hlátur og grátur.“

Jenný segist í dag afar þakklát fyrir lífið og heilsuna. „Ég kom út úr þessum veikindum sem betri manneskja, lífsreyndari og skil lífið svo miklu betur. Ég sé enga aðra ástæðu í dag en að taka þessa reynslu með mér út í lífið og nýta hana til góðs.“

Jenný Þórunn ræddi málið jafnframt í Íslandi í dag í kvöld, en viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Vekja athygli á krabbameini

Átakið #shareyourscar á vegum Krafts hefur­ vakið athygli fyrir áhrifamiklar myndir.­ Markmið verkefnisins er að vekja athygli á krabbameini hjá ungu fólki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×