Innlent

Sala á íslensku neftóbaki aldrei meiri: Keyptum 36 tonn árið 2015

Birgir Olgeirsson skrifar
Íslendingar eyddu rúmum milljarði í 722 þúsund neftóbaksdósir.
Íslendingar eyddu rúmum milljarði í 722 þúsund neftóbaksdósir. Vísir/365
Sala á íslensku neftóbaki hefur aldrei verið meiri. Samkvæmt upplýsingum frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins seldust 36, tonn af tóbaki í fyrra en til samanburðar var salan árið 2014 32,8 tonn, sem er aukning upp á tæp tíu prósent.

Þetta þýðir að Íslendingar keyptu 722 þúsund dósir sem innihalda 50 grömm af íslensku neftóbaki. Ef miðað er við að hver dós út úr búð kosti um 1.900 krónur gerir það um 1,4 milljarð íslenskra króna.

Undanfarin ár hefur salan aukist jafnt og þétt á íslensku tóbaki að undanskyldu árinu 2012 þar sem salan dróst saman um 4,9 prósent, fór úr 30 tonnum árið 2011 í 28,7 tonn árið 2012.

Þar á undan hafði salan á íslensku tóbaki rúmlega tvöfaldast á sjö ára tímabili, frá árinu 2003 til 2010, fór úr 11,7 tonnum í 25,5 tonn.

Sala á vindlingum og sígarettum dróst saman árið 2015. Í fyrra seldust 1.067.865 kartona en 1.088.096 karton árið 2014, og dróst því salan saman 1,9 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×