Innlent

Vilja þakið af en ná ekki í eigandann

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Þegar vindar blása ólmast þakplöturnar undir netinu og skjóta fólki skelk í bringu. Myndin er tekin í vikunni.
Þegar vindar blása ólmast þakplöturnar undir netinu og skjóta fólki skelk í bringu. Myndin er tekin í vikunni.
Bæjaryfirvöld í Garði gáfu nú um áramótin húseiganda fjögurra vikna frest til að lagfæra þak með lausum þakplötum. Helst vill bærinn fá að taka þakið strax af húsinu.

„Það er ekkert annað að gera, þetta er náttúrlega stórhættulegt ástand,“ segir Magnús Stefánsson bæjarstjóri.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, meðal annars á síðustu dögum, hefur ekki náðst í eiganda hússins sem býr í því þótt það hafi í raun verið opið fyrir vatni og vindum í um þrjú ár eftir fokskemmdir á þakinu. Björgunarsveitin á staðnum og bæjaryfirvöld hafa brugðið neti yfir húsið sem fyrir bragðið er kallað hárnetshúsið meðal íbúa í Garði.

Jón Ben Einarsson byggingarfulltrúi segist vonast til að eigandinn leyfi bænum að rífa þakið af áður en fjögurra vikna fresturinn er úti.

„Ég bara bind vonir við að hann leyfi okkur að fjarlægja það sem er laust svo við getum verið áhyggjulausir yfir því að það sé ekki að valda einhverjum öðrum tjóni. Fólk í nágrenninu hefur haft áhyggjur af því að fá fok yfir sig og það er skiljanlegt,“ segir Jón Ben Einarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×