Fótbolti

Neymar heldur fram sakleysi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Neymar fylgdist með úr stúkunni er Brasilía vann Venesúela.
Neymar fylgdist með úr stúkunni er Brasilía vann Venesúela. Vísir/Getty
Brasilíumaðurinn Neymar heldur því enn fram að hann hafi ekkert rangt gert og átti ekki skilið að verða dæmdur í fjögurra leikja bann.

Neymar fékk að líta rauða spjaldið í 1-0 tapi Brasilíu gegn Kólumbíu í Suður-Ameríkukeppninni í síðustu viku fyrir að reyna að skalla Jeison Murillo og veitast að dómara leiksins, Enrique Osses, með fúkyrðaflaum.

Hann var í fyrstu dæmdur í eins leiks bann en á föstudag ákvað knattspyrnusamband Suður-Ameríku að úrskurða hann í fjögurra leikja bann. Neymar ákvað þá að yfirgefa herbúðir brasilíska landsliðsins og halda heim á leið.

Neymar hefur nú tjáð sig um málið í viðtölum við fjölmiðla í Brasilíu og heldur hann fram sakleysi sínu.

„Það gerðist ekkert á leið aftur til búningsklefanna, í raun. Ég beið þar eftir dómaranum til að spyrja hann um ástæður þess að hann rak mig út af,“ sagði Neymar.

„Þá hópaðist fólk saman og öryggisverðir komu að mér því þeir héldu að ég vildi ráðast á dómarann,“ bætti hann við.

Neymar sagði að hann hafi ákveðið að fara frá Síle eftir að hafa ráðfært sig við föður sinn og forráðamenn brasilíska landsliðsins.

„Það er líf í landsliðinu eftir Neymar. Leikmennirnir hafa sýnt að þeir geta unnið leiki og unnið Suður-Ameríkukeppnina,“ sagði hann.


Tengdar fréttir

Messi miður sín yfir banni Neymar

Lionel Messi, hinn magnaði leikmaður Barcelona og argentíska landsliðsins, er miður sín yfir fjögurra leikja banni sem, samherji hans hjá Barcelona, Neymar fékk á Suður-Ameríkukeppninni í knattspyrnu.

Brasilía tryggði sig áfram án Neymar

Brasilía tryggði sig áfram í átta liða úrslit Suður-Ameríkubikarsins með 2-1 sigri á Venesúela í leik liðanna í kvöld, en mótið fer fram í Síle.

Neymar dæmdur í fjögurra leikja bann

Neymar, fyrirliði brasilíska landsliðsins, hefur verið dæmdur í fjögurra leikja bann. Auk bannsins fékk Neymar 10.000 dollara sekt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×