Eydís er í bæjarstjórn og bæjarráði og fær að finna fyrir því að búa í sveitarfélagi með mörgum þéttbýliskjörnum, er búsett á Eskifirði en starfar sem framhaldsskólakennari í Neskaupstað og hefur gert frá árinu 1999. Aðalskrifstofur bæjarstjórnar eru hins vegar á Reyðarfirði. Er hún ekki ansi mikið á fartinni?
„Jú, ég keyri náttúrlega alltaf yfir Oddskarðið í vinnuna og svo er Reyðarfjörður alveg í hina áttina,“ viðurkennir hún.
Jafnréttismál voru fyrirferðarmikil á umræddum fundi bæjarstjórnarkvenna. Tillaga um að efla hinsegin fræðslu í grunnskólum Fjarðabyggðar, staða kvenna á vettvangi sveitarstjórnarmála á landsvísu og viljayfirlýsing um átak gegn heimilisofbeldi voru meðal umræðuefna.
Völd karla voru líka svolítið gagnrýnd, að sögn Eydísar.
„Það er ekki alltaf auðvelt að vera kona í bæjarstjórn og bæjarráði Fjarðabyggðar, því það er karllægt umhverfi. Sviðsstjórar eru sex, þar af fimm karlmenn, bæjarstjóri er karl og bæjarritari líka en ég tek fram að ég hef átt mjög gott samstarf við alla á þessum vettvangi. Svo á ég eintóma stráka og er ýmsu vön!“
Eydís tekur líka fram að hlutföllin innan bæjarstjórnar hafi breyst í sumar þannig að í fyrsta skipti séu konur þar í meirihluta og hið sama gildi um hafnarstjórn. Hún er ein þeirra sem þar sitja og hafnirnar í sveitarfélaginu eru margar og stórar svo það er viðamikið svið.

Eydís tekur þó fram að hún hafi haft góða kvenfyrirmynd því tengdamóðir hennar, Hildur Metúsalemsdóttir, hafi setið í bæjarstjórn Eskifjarðar fyrir Alþýðubandalagið frá 1970 til 1978.
Eydís vonar að með fundinum í fyrradag og öðrum viðburðum í tengslum við kosningaafmælið geri almenningur sér betur grein fyrir mikilvægi kosningaréttarins og nýti hann. „Það er áhyggjuefni hversu dræm kosningaþátttakan hefur verið í síðustu kosningum á Íslandi og þá sérstaklega meðal ungs fólks,“ segir hún. „Kosningaréttur er nefnilega víða ekki sjálfsagður hlutur í hinni stóru veröld.“