Innlent

Föstudagsviðtalið: Refsing fyrir sum brot tekur aldrei enda

Ólöf Skaftadóttir og Viktoría Hermannsdóttir skrifa
Anna Kristín tekst á við ýmislegt í starfi sínu. Hún segist hafa orðið hrædd á köflum, en sjaldnar en hún átti von á.
Anna Kristín tekst á við ýmislegt í starfi sínu. Hún segist hafa orðið hrædd á köflum, en sjaldnar en hún átti von á. vísir/vilhelm
Anna Kristín Newton er starfandi sálfræðingur inni í fangelsunum. Hún segir mikilvægt að gera miklu betur til þess að hjálpa föngum að koma út í samfélagið á nýjan leik.

„Ef við horfum til nágrannalanda okkar þá hefur verið unnin vinna til að koma föngum út í samfélagið aftur. Opinberir aðilar, samtök og aðstandendur hafa tekið á móti til að mynda kynferðisafbrotamönnum eftir fangelsisvist og reynt að búa til öruggt net í kringum þá. Bæði að þeir fái stuðning við að koma aftur út í samfélagið því það getur verið mjög erfitt en líka að þeir upplifi sig sem hluta af einhverri heild. Þar er oft skortur á. Við höfum tilhneigingu til þess að ýta þeim út í horn og vilja ekki af þeim vita.“

Mikil umræða upphófst um barnaníðinga árið 2013 eftir umfjöllun Kastljóss um mál Karls Vignis Þorsteinssonar. Í kjölfarið var opnuð vefsíða sem meðal annars birti nöfn dæmdra níðinga og myndir af þeim. Anna telur þá aðferð ekki vænlega til árangurs.

„Ég tel síður sem þessar ekki hafa tilætluð áhrif. Þær skaða meira en að verja einhverja fyrir þessum einstaklingum. Það hefur verið sýnt fram á það þar sem hafa verið nafn- og myndbirtingar af brotamönnum, til dæmis í Bandaríkjunum, að þar er tíðni kynferðisbrota ekkert minni en annars staðar. Það virðist ekki hafa tilætluð áhrif eða fælingarmátt,“ segir Anna Kristín og bætir við að Ísland sé þrátt fyrir allt réttarríki.

„Þeim sem eru haldnir barnagirnd, og hafa eingöngu kynferðislegan áhuga á börnum, er hægt að gefa lyf til þess að halda niðri kynhvöt.“vísir/vilhelm
Getum ekki breytt hugsunum

„Við tölum um það að þegar fólk hefur farið og lokið sinni afplánun þá sé það búið að taka út sína refsingu. En refsingin fyrir sum brot hverfur aldrei. Við verðum að gefa fólki tækifæri til að bæta sig. Er það ekki það sem við erum að óska eftir með því að vera með réttarkerfi? Ef við ætlum að halda áfram að refsa fólki endalaust þá er hugmyndafræðin mjög skert.“

Anna hefur unnið með dæmdum barnaníðingum. Er hægt að lækna barnagirnd?

„Við getum aukið líkurnar á því að fólk brjóti ekki aftur af sér. Það er ekki þar með sagt að við getum breytt hugsunum þeirra. En það er fullt af fólki á Íslandi í dag með alls konar hugsanir sem við refsum ekki fyrir. Við refsum fyrir gjörðirnar. Og varðandi barnagirnd er þetta mjög heit umræða; hvað er barnagirnd nákvæmlega, er hún alveg föst í sessi, er hægt að breyta henni? Fyrir mér er þetta spurning um að halda fólki öruggu. Við viljum ekki að þeir brjóti á neinum. Það er fyrst og fremst markmiðið, hitt er erfiðara því ég les ekki hugsanir. Jafnvel þó einhver segi við mig að hann hafi ekki langanir til barna þá veit ég það ekki, því ég les ekki hugsanir,“ útskýrir hún.

En hvernig er að vinna með svona einstaklingum?

„Það er áhugavert, getur verið krefjandi og mjög skemmtilegt. Það getur líka verið dapurlegt og mjög erfitt. Mjög frústrerandi að geta ekki fundið þeim samastað þegar maður virkilega sér að þau hafi verið að bæta sig og bæta fyrir brot sitt,“ segir hún. 

Út frá Beauty Tips byltingunni þar sem þolendur kynferðisofbeldis risu upp og skiluðu skömminni hefur kastljósinu verið beint að gerendum í auknum mæli. Óttar Guðmundsson geðlæknir velti því upp í Fréttablaðinu á dögunum hvort um væri að ræða nokkurs konar fíkn.

„Ég skil hvaðan hann er að koma, að hluta til er ég sammála. Við sjáum til dæmis að þeir sem ánetjast klámi eru farnir að nota klámið ekki bara fyrir kynferðislega útrás heldur sem leið til að takast á við lífið. Það getur verið ákveðin fíknitengd hegðun. Hvað varðar barnagirnd þá er það kannski annað, við tölum um barnagirnd sem kynlöngun. Þinn kynferðislegi áhugi beinist að börnum. Auðvitað getur fólk orðið upptekið af því eins og það getur orðið upptekið af öðru.“

Hvernig er hægt að vinna með þetta?

„Það hafa verið farnar ýmsar leiðir. Þeim sem eru haldnir barnagirnd, og hafa eingöngu kynferðislegan áhuga á börnum, er hægt að gefa lyf til þess að halda niðri kynhvöt. En samhliða því er nauðsynlegt að vera með samtalsmeðferð. Megináherslan er að breyta óheilbrigðum hugsunum og beina þeim í aðrar áttir. Þegar maður fær kynferðislegar langanir sem í þessu tilfelli beinast að börnum reynir maður að stöðva það hugsunarferli áður en það nær lengra.“

„Við þurfum að fara að horfa meira á það hvað við gerum eftir að fólk losnar úr fangelsi heldur en það sem verið er að gera meðan það er í fangelsi.“vísir/vilhelm
Ætlaði að verða leynilögga

Anna Kristín var ung þegar hún vissi hvað hún vildi gera þegar hún yrði stór. Sem barn las hún mikið og þá voru ráðgátu- og leynilögreglusögur í uppáhaldi. „Ég las allar bækurnar um Nancy Drew, ég hélt kannski að ég yrði leynilögga,“ segir hún og skellir upp úr. „Svo þegar aldurinn fór að færast yfir áttaði ég mig á því að það væri ekki minn styrkleiki. Ég hafði áhuga á fólki og þegar ég komst að því að það væri hægt að læra eitthvað sem hét réttarsálfræði þá vissi ég að ég væri komin á rétta hillu.“

Hún ólst upp í Bretlandi en faðir hennar er breskur. Fjölskyldan flutti til Íslands á níunda áratugnum. „Það var mikill happafengur fyrir okkur að hafa fengið að upplifa frelsið sem fylgir því að búa á Íslandi.“ 

Hún uppgötvaði réttarsálfræði um átján ára aldur og þar með var framtíðin ráðin. Anna Kristín tók BS-gráðu í sálfræði. Eftir námið tók hún sér árs frí og fór að vinna í Hegningarhúsinu.

„Ég ákvað að gerast fangavörður til þess að kanna hvort þetta ætti við mig. Ég hafði hugsað mér að fara í lögguna en þrekprófið fældi frá,“ segir hún kímin. „Það var rosalega mikill skóli og lærdómur. Ég sá að þarna ætti ég erindi.“

Fangar eiga líka maka og foreldra

Margt kom á óvart í starfi fangavarðar. „Fyrst og fremst upplifði maður svo sterkt að þrátt fyrir alla þá ömurlegu atburði sem einstaklingar sem eru í fangelsi hafa átt þátt í og jafnvel valdið miklum skaða, eru þetta allt manneskjur. Þessar manneskjur eiga aðra á bak við sig. Börn, maka, foreldra og slíkt. Maður sá að það er von til breytinga og það fannst mér skipta máli.“

Eftir árið í Hegningarhúsinu hélt hún til Bretlands í mastersnám í réttarsálfræði og sneri aftur að því loknu.

„Það eru ekki mörg störf sem mættu kallast réttarsálfræðileg. Þegar ég klára námið er einn af tveimur starfandi sálfræðingum í fangelsunum að fara út. Ég var svo heppin að detta beint í þá stöðu.“ 

Ekkert fjármagn eyrnamerkt

Hjá Fangelsismálastofnun hefur hún starfað með hléum frá 2001. Anna hefur starfað mikið sem áður segir með dæmdum kynferðisafbrotamönnum. Hún hefur meðal annars unnið að því að þróa meðferðarúrræði fyrir þá.

„Það hefur ekki verið til verkferill nema í huga okkur sem störfum á þessu sviði. Það var fjármagn sett í málaflokkinn, en fjármagnið er uppurið. Það er með þetta eins og allt annað, það tekur breytingum. Þetta er ekki eitthvað sem þú gerir einu sinni og getur svo gert eins næstu 20 ár. Það þarf að fylgjast með, vera vakandi fyrir því hvaða áherslubreytingar verða í meðferðum. Hvað virkar og hvað ekki. Það þarf eftirfylgni. Því miður er ekki eyrnamerkt neitt fjármagn fyrir það.”

Reyndar segir hún vanta mjög upp á eftirfylgni í meðferðarmálum eftir að fangar hafa afplánað dóma. Hvort sem um sé að ræða dæmda kynferðisafbrotamenn eða aðra.

„Við þurfum að fara að horfa meira á það hvað við gerum eftir að fólk losnar úr fangelsi heldur en það sem verið er að gera meðan það er í fangelsi.“

„Stundum er ekki tímabært að fara í grunninn eða erfiðustu áföllin meðan fólk er í fangelsi, þó að það þurfi kannski að gera það seinna.“vísir/vilhelm
Fanga vantar stuðning

„Ég held að við sem samfélag, okkur finnist erfitt að vita hvernig og hvort við viljum taka á móti þessum einstaklingum,“ segir hún. „Margir þeir sem eru dæmdir í fangelsi, sérstaklega fyrir alvarleg brot, eiga litla möguleika á að samlagast samfélaginu á ný. Sem maður skilur svo sem. Jafnvel þótt þeir hafi gengist við meðferð og sýnt fram á að þeir vilji breytast.“

Sjálf myndi hún vilja sjá opinber úrræði breytast. „Það er kannski til of mikils ætlast að samfélagið breyti afstöðu sinni á einni nóttu. En við sem störfum og stöndum þessum einstaklingum nærri, fjölskylda, vinir og samtök, getum stutt betur við þetta fólk til þess að halda því öruggu, til þess að halda samfélaginu öruggu. Það þurfa allir að eiga samastað. Það þurfa allir að finna að einhver þurfi á þeim að halda. Við þurfum ást og umhyggju, húsnæði, vinnu og mat. Þetta eru hlutir sem sumir dæmdir einstaklingar eiga af skornum skammti þegar afplánun lýkur.“

Meðferðargangurinn á að vera sér

Vímuefnavandi fanga hefur verið áberandi. „Við vitum að allt að 70 prósent þeirra sem eru í fangelsi hafa átt við viðvarandi vímuefnavanda að stríða. Þegar fólk er í neyslu skekkist öll heimsmyndin. Fólk verður hvatvísara, óstabílla, meiri hætta er á að fólk sýni af sér ógnandi og erfiða hegðun, afbrotahegðun,“ segir hún.

„Við þurfum sterkari meðferðarúrræði þó að margt gott sé þegar gert.“ Í dag er starfandi meðferðargangur á Litla-Hrauni þar sem pláss er fyrir ellefu fanga.

„Það er ómetanlegt úrræði. En það þyrfti að vera hægt að bjóða upp á það í öðru húsnæði, ekki inni í fangelsinu.“

Hún segir vanda fanganna oft eiga uppruna sinn í áföllum úr æsku.

„Það þarf að ná utan um þennan vímuefnavanda en líka taka á hinum vandamálunum. Það þarf mjög sértæk úrræði fyrir þennan hóp ef þau eiga að skila árangri.“

Áföll tengjast afbrotahegðun

„Við vitum að því fleiri áföllum sem þú verður fyrir, því líklegra er að þú lendir út af á lífsleiðinni. Við sjáum þetta frá barnsaldri. Við vitum að það eru ákveðnir krakkar sem lenda utanveltu við skólakerfið. Þessir krakkar eru líklegri til þess að sækja í neikvæðan félagsskap, sem getur leitt til annarra vandamála, þroskinn kemur ekki rétt út og annað. Þó maður geti ekki fullyrt um það myndi ég segja að hátt hlutfall þeirra sem eru í fangelsi hafi átt erfiða æsku.“

Hún segist oft hafa rætt við fanga og fengið að heyra af erfiðri æsku. „Þá skilur maður alveg af hverju þeir eru komnir á þennan stað. Þó svo að maður myndi alls ekki vilja óska þeim það. Stundum er ekki tímabært að fara í grunninn eða erfiðustu áföllin meðan fólk er í fangelsi, þó að það þurfi kannski að gera það seinna. Fyrst og fremst að reyna að stoppa frekari brotahegðun.“

Hún segir vanta mannskap. Í dag starfa tveir sálfræðingar hjá Fangelsismálastofnun og sinna 5-600 manns. Það þyrftu að vera allavega fjórir í fullu starfi. „Það eru ekki allir sem fá sálfræðiþjónustu. Það væri ógerlegt,“ segir Anna og bætir við að vandi fanganna sé oft margþættur. „Hvert og eitt mál getur tekið langan tíma í úrvinnslu.“



„Þær konur sem lenda í fangelsi eru oft og tíðum mjög veikar. Það hefur verið tilhneiging hjá okkur að segja að þær séu veikari en strákarnir.“vísir/ernir
Er hægt að bjarga fólki með réttum aðferðum?

„Maður bjargar ekki neinum, þau verða að bjarga sér sjálf. Það er hægt að styðja til breytinga. Það ætlaði sér enginn að enda í fangelsi. Það var aldrei hugmyndin. Og ef svo var þá var það mjög skrítin glamúrmynd sem fellur hratt. Þegar þeir koma í fangelsi er veruleikinn annar. Flestir vilja ekki þetta líf og flestir vilja ekki valda öðrum skaða.“

Afar fáar konur er í fangelsum á Íslandi, yfirleitt 5-7 konur þegar mest er. Hefur þú einhverjar skýringar á því hvers vegna fleiri karlmenn fremja glæpi og eru dæmdir fyrir þá?

„Þær konur sem lenda í fangelsi eru oft og tíðum mjög veikar. Það hefur verið tilhneiging hjá okkur að segja að þær séu veikari en strákarnir. Ég er aðeins farin að breyta afstöðu minni, ég veit ekki hvort þær eru veikari. Það er kannski viðhorf okkar til kvenna sem lenda í fangelsi sem er öðruvísi,“ segir hún.

„Það er meiri samúð, vissulega hafa þær oft reynt mjög margt þegar þær koma í fangelsi. Helga Vala Helgadóttir gerði rannsókn á hvernig er farið með konur innan réttarkerfisins. Þær voru líklegri til að fá skilorðsbundna dóma fyrir sambærileg brot og þar af leiðandi frestaðist afplánun þeirra um lengri tíma. Þær eru þess vegna eldri, með fleiri skilorðsbundna dóma þegar þær lenda í fangelsi. Þegar þær koma inn eru þær komnar á slæman stað.“

Grjóthörð en stundum hrædd

En þarf maður ekki að vera grjótharður til að sinna þessu starfi? Verður hún aldrei hrædd?

„Jú, ég hef orðið hrædd, það hefur allt komið fyrir.“ Hefur þér verið hótað? „Já, en mjög sjaldan. Raunverulega er sá hluti starfsins miklu einfaldari en ég átti von á. Vissulega koma upp atvik þar sem maður er hræddur. Maður þarf að átta sig á því að maður er í umhverfi sem oft og tíðum er erfitt og það geta komið upp hættulegar aðstæður. Við erum með öryggishnappa og eigum að ganga með þá.“ 

Hún segist ekki halda að allir séu hættulegir. „En það geta komið upp aðstæður sem maður ræður ekki við. Ef maður er óviss eða óöruggur þá tekur maður einhvern með sér. Það er mjög mikilvægt að starfsfólk standi saman og það gerir það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×