Lífið

Bakkað á bílinn og missa af Herjólfi

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Auðunn Blöndal og Steindi JR. leggja ýmislegt á sig í myndbandinu.
Auðunn Blöndal og Steindi JR. leggja ýmislegt á sig í myndbandinu.
„Þetta voru erfiðustu tökur sem við höfum tekið þátt í. Við erum eiginlega búnir að vera á fullu í tökum frá því klukkan tíu á miðvikudagsmorgni og þangað til núna,“ segir fjölmiðlamaðurinn Auðunn Blöndal. Hann og Steindi Jr. hafa undanfarna daga verið í tökum fyrir nýtt tónlistarmyndband, sem er við Þjóðhátíðarlag þeirra félaga í útvarpsþættinum FM 95Blö.

Lagið er tökulag en útgáfa Blö-bræðranna ber titilinn Ég fer á Þjóðhátíð. „Við lofuðum Þjóðhátíðarlagi, síðast tókum við Backstreet boys-lagið Incomplete en núna er það lagið Titanium. Ég, Steindi og Ásgeir úr StopWaitGo sömdum textann og þeir í StopWaitGo hjálpuðu okkar að útfæra þetta,“ segir Auddi um lagið.

Egill Einarsson var þó megindrifkrafturinn í myndbandsgerðinni þó svo að hann hafi verið vant við látinn í tökunum. „Ástæðan fyrir því að við ákváðum að kýla á að gera myndband og lag var sú að Egill var alltaf að tuða í okkur um að við yrðum að vera með nýtt lag og myndband klárt fyrir Þjóðhátíð. Hann var samt staddur í 30 stiga hita á Tenerife með mojito þegar hann var að tuða í okkur, á meðan ég og Steindi þurftum að klífa fjöll og synda í sjó,“ segir Auddi um upphafið.

Auðunn Blöndal og Steindi Jr. lofa góðu stuði á Þjóðhátíð.
„Myndbandið fjallar um það að Steindi ætlaði að koma að sækja mig fyrir Þjóðhátíð en hann kemur of seint og við reynum allt sem við getum til þess að ná að komast á Þjóðhátíð, styttum okkur leiðir og ég veit ekki hvað og hvað,“ útskýrir Auddi. Þess má til gamans geta að söguþráður myndbandsins varð til í raun og veru því þeir félagar misstu af Herjólfi þegar þeir ætluðu til Vestmannaeyja til að skjóta hluta myndbandsins. „Við misstum af Herjólfi því Steindi var of seinn, hann fékk aldeilis að heyra það, kallinn. Við náðum samt að nýta tímann í aðrar tökur.“ 

Auddi lenti þó í smá hremmingum þegar í Landeyjahöfn var komið. „Það var bakkað á bílinn minn þannig að hann er klesstur. Ég þurfti að skilja hann eftir og við gerðum tjónaskýrsluna í Herjólfi,“ bætir Auddi við.

Útvarpsþátturinn FM 95Blö verður sendur út beint frá veitingastaðnum 900 Grill í Eyjum næsta föstudag og þá ætla þeir félagar einnig að troða upp á Brekkusviðinu í dalnum. „Þetta er FM 95Blö og gestir. Þarna verða Steindi og Bent, Sverrir Bergmann, Egill Einarsson ætlar að dj-a og svo verðum við með leynigest. Ég lofa þéttri og óvæntri skemmtun,“ segir Auddi spurður út í atriðið þeirra á Þjóðhátíð.

Myndbandið við Þjóðhátíðarlagið, sem framleitt er af framleiðsluteyminu IRIS, verður frumsýnt á Vísi um helgina. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×