Innlent

Tóku styttuna með sér heim í leigubíl

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Höggmynd eftir Steinunni Þórarinsdóttur var stolið af bekk í Kaupmannahöfn.
Höggmynd eftir Steinunni Þórarinsdóttur var stolið af bekk í Kaupmannahöfn. Mynd/steinunn þórarinsdóttir
Höggmynd Steinunnar Þórarinsdóttur sem stolið var í síðustu viku í Kaupmannahöfn fannst á svölum íbúðar í borginni á sunnudag. Verkið hafði verið til sýnis á bekk við Amagertorg og var eitt af rúmlega tuttugu listaverkum Steinunnar sem eru nú til sýnis víðs vegar um borgina.

Útlit er fyrir að þjófarnir hafi skilið verkið eftir við Kóngsins nýjatorg en þaðan tók annar maður styttuna. Sá fór með hana heim til sín í leigubíl. Steinunn segir manninn líklega ekki hafa þorað að geyma verkið lengur eftir að málið komst í hámæli.

Málið vakti athygli eftir að myndir af upphaflega þjófnaðinum rötuðu í fjölmiðla. Myndina tók íslenskur ferðamaður sem átti leið hjá.

Eigandi íbúðarinnar hringdi loks í eiganda gallerísins sem sér um sýninguna ásamt borginni og tilkynnti um verknaðinn.

„Það er auðvitað eðlilegt að verk eins og þetta verði fyrir núningi þar sem það er sett upp í almannarými í stórborg og þá verður bara að taka á því. Kaupmannahafnarborg og Galleri Christoffer Egelund tóku myndarlega á málinu og svo auðvitað frábær íslensk kona sem var á Strikinu að nóttu til og tók myndirnar sem réðu úrslitum,“ segir Steinunn Þórarinsdóttir. Sýning hennar mun standa yfir í allt sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×