Innlent

Ónæði í vinnunni elleftu hverja mínútu

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Kostnaður vegna einbeitingarskorts starfsmanna kostar fyrirtæki í Bandaríkjunum 450 til 500 milljarða dali á ári.
Kostnaður vegna einbeitingarskorts starfsmanna kostar fyrirtæki í Bandaríkjunum 450 til 500 milljarða dali á ári. NORDICPHOTOS/GETTY
Þeir sem vinna í opnu rými eru að meðaltali truflaðir elleftu hverja mínútu. Það hefur ekki bara áhrif á vinnufrið, heldur einnig framleiðni. Þetta eru niðurstöður alþjóðlegrar rannsóknar á vegum bandaríska húsgagnaframleiðandans Steelcase.

Alls tóku 10.500 einstaklingar í 14 löndum þátt í rannsókninni. Af þeim sögðust 85 prósent ekki geta einbeitt sér í vinnunni en 11 prósent sögðust vera ánægð með vinnuumhverfi sitt. Síðarnefndi hópurinn átti auðveldara með að einbeita sér.

Á fréttavef sænska blaðsins Dagens Nyheter er haft eftir Gunnari Aronssyni, prófessor í vinnu- og skipulagssálfræði við Háskólann í Stokkhólmi, að afar fáar rannsóknir leiði í ljós að opið skrifstofurými sé jákvætt fyrir starfsmenn. Rannsóknir hafi ekki bara sýnt fram á ónæði, heldur séu veikindi algengari hjá þeim sem starfa í opnu skrifstofurými.

Dagens Nyheter greinir frá því að með opnu skrifstofurými, sem farið var að nota á sjötta áratug síðustu aldar, hafi átt að auka samvinnu starfsmanna og hugmyndavinnu. Nú snúist þetta frekar um sparnað, pláss og möguleika á breytingum. Tekið er fram að einbeitingarskortur starfsmanna kosti talsverða fjármuni. Rannsókn á vegum Gallup sýni að eingöngu í Bandaríkjunum sé kostnaður fyrirtækja vegna þess 450 til 500 milljarðar Bandaríkjadala á ári.

Truflunin er ekki bara sögð draga úr framleiðni starfsmanna, heldur einnig áhuga þeirra. Gunnar Aronsson bendir á að sá sem er í starfi sem hann hefur persónulegan áhuga á geti orðið fyrir miklum vonbrigðum nái hann ekki að vinna verk sitt vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×