Innlent

Segir Kjartan slá um sig með stóryrðum

fanney birna jónsdóttir skrifar
Skúli Helgason segir reynt að aðstoða börn í fjölþættum vanda.
Skúli Helgason segir reynt að aðstoða börn í fjölþættum vanda.
„Ég er mjög hissa á þessu og Kjartan [Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins] slær um sig með ýmsum stóryrðum sem eiga sér bara enga stoð í raunveruleikanum,“ segir Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur.

Kjartan sagði við Fréttablaðið í gær að meirihlutinn í borginni hefði orðið uppvís að miklu kæruleysi, úrræðaleysi og jafnvel afglöpum í málefnum barna í fjölþættum vanda, einkum vímuefnavanda.

Á fundi skóla- og frístundaráðs í síðustu viku var samþykkt tillaga meirihlutans um að stofnað yrði teymi til að auka stuðning við þessi börn.

„Okkar vinna gengur út á að styrkja stuðningsnetið við skólana með því að mæta þörf þeirra fyrir viðbótaraðstoð. Viðbragðsteymið mun aðstoða skólana við að leysa úr einstökum málum og velja viðeigandi úrræði. Það fær víðtækt umboð til að velja og móta ný úrræði til að takast á við þennan fjölþætta vanda í góðu samráði við stjórnendur, foreldra og fagfólk í skólum,“ segir Skúli. Hann hafi lagt til að tillögu sjálfstæðismanna um sérúrræði til að mæta þörfum nemenda sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða yrði vísað til teymisins en því hafi Kjartan hafnað.

„Að mínu mati er það miður, það er margt í henni sem hefði mátt nýta,“ segir Skúli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×