Innlent

Segir meirihlutann uppvísan að afglöpum

fanney birna jónsdóttir skrifar
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi hefur áhyggjur af ungmennum í vanda.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi hefur áhyggjur af ungmennum í vanda. Fréttablaðið/Anton
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir meirihlutann í borginni hafa orðið uppvísan að miklu kæruleysi, úrræðaleysi og jafnvel afglöpum í málefnum barna í fjölþættum vanda, einkum vímuefnavanda.

Á fundi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur í síðustu viku var málefnið til umræðu og segir Kjartan formann skóla- og frístundaráðs, Skúla Helgason, hafa beitt þöggun og ekki flutt upplýsingar um alvarleg vandamál sem við er að etja í grunnskólum borgarinnar vegna þessa.

Á fundinum var sviðsstjóra falið að setja á fót teymi sem hafi það hlutverk að auka stuðning við börn og ungmenni á grunnskólaaldri með fjölþættan vanda, þar með talinn vímuefnavanda.

Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins var felld, en þar var lagt til að komið yrði á fót sérúrræði til að mæta þörfum nemenda sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða.

Áheyrnarfulltrúar kennara í grunnskólum, skólastjóra og foreldra og fleiri, lögðu fram bókun þar sem fram kom að þjónusta og stuðningur við börn með hegðunarvanda, kvíða, tilfinningavanda, geðræn vandamál, málhömlun, vímuefnavanda og þroskahamlanir sé engan veginn viðunandi. Grípa þurfi inn í mál áður en vandinn verði óyfirstíganlegur, auka sérfræðiþjónustu í skólum, styðja betur við fjölskyldur og fjölga meðferðarúrræðum fyrir börn í miklum vanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×