Innlent

Sprunga djúpt í Langjökli magnar upp upplifun gesta

svavar hávarðsson skrifar
Verkefnið hefur vakið athygli erlendis og Lonely Planet hefur valið ísgöngin einn mest spennandi viðkomustaðinn árið 2015. 
mynd/IceCaveiceland
Verkefnið hefur vakið athygli erlendis og Lonely Planet hefur valið ísgöngin einn mest spennandi viðkomustaðinn árið 2015. mynd/IceCaveiceland
Innan fárra vikna verður lokið við að grafa ísgöng í Langjökli – þau lengstu sinnar tegundar í Evrópu. Þá tekur við lokafrágangur en tekið verður á móti fyrstu gestum í júní og þeir leiddir tugi metra undir jökulinn þar sem bíður þeirra undraveröld.

„Þetta er langt komið. Ætli við eigum ekki eftir tíu daga í að klára göngin sjálf, og eftir það eru einhverjir hellar eftir og svo frágangsvinna; að snurfusa eitt og annað áður en við tökum til við að setja upp lýsingu og fleira,“ segir Sigurður Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri IceCave Iceland.

Sigurður Skarphéðinsson
Í raun er íshellirinn, sem er að verða tilbúinn, hringlaga göng sem ná um 200 metra inn í jökulinn á 30 metra dýpi. „En þegar þú labbar hringinn eru þetta tæpir 400 metrar og lengra þegar krókar og kimar eru meðtaldir,“ segir Sigurður.

Við gröftinn inn í jökulinn „fundu“ verktakarnir sprungu eina mikla djúpt í jöklinum. Sigurður segir að þessi smíð frá náttúrunnar hendi verði eitt helsta aðdráttarafl ganganna. „Stóri bónusinn var að við komum inn í gríðarstóra sprungu; þar sem við komum inn í hana er hún 5 metrar á breidd og hún er 200 til 300 metra löng. Hún opnast ekki yfir sumarið, og við komum að henni í botninn. Það verður mikil upplifun fyrir gesti að horfa eftir henni,“ segir Sigurður.

Í þessari undraveröld í jöklinum, sem Sigurður lýsir, verður gestum boðið að virða fyrir sér sýningar í afkimum og hliðarskútum, þar verða jafnvel tilhöggvin íslistaverk sem gleðja augað svo ekki sé talað um sjálft jökulstálið, upplýst eftir kúnstarinnar reglum. Hugsað er fyrir öllu, jafnvel þeim sem eru á þeim buxunum að ganga í það heilaga því í jöklinum verður lítil kapella fyrir þá sem gera sérkröfur.

Göngin eru ofan við Geitlandsjökul í um 1.260 metra hæð yfir sjávarmáli, og hugsuð sem viðbót við ferðaþjónustu á því svæði landsins sem ásóknin er mest. Það er Icelandic Tourism Fund (ITF I), framtakssjóður í eigu Landsbankans, Icelandair Group og nokkurra lífeyrissjóða, sem stendur að verkefninu undir merkjum fyrirtækisins IceCave. Við opnun í sumar var reiknað með að framkvæmdin myndi kosta á bilinu 200 til 300 milljónir, en Sigurður telur að hún verði lítið eitt dýrari.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.