Innlent

Pylsurnar aftur úr íslensku hráefni

Íslenskir kjötframleiðendur hafa aukið vöruframboð af alls kyns pylsum til að mæta eftirspurn Íslendinga eftir slíku fæði. Upp hefur komið skortur á innlendu hráefni og þá þarf að nota erlent kjöt í pylsurnar.
Íslenskir kjötframleiðendur hafa aukið vöruframboð af alls kyns pylsum til að mæta eftirspurn Íslendinga eftir slíku fæði. Upp hefur komið skortur á innlendu hráefni og þá þarf að nota erlent kjöt í pylsurnar.
Landbúnaður„Íslensku pylsurnar frá SS eru nú alíslenskar,“ segir Guðmundur Svavarsson, framleiðslustjóri á Hvolsvelli, og segir nú nóg til af innlendu hráefni til framleiðslunnar. Ekkert þurfi af innfluttu, erlendu kjöti í framleiðsluna. „Við reiknum með að þurfa ekki að grípa til innflutnings aftur næsta sumar þrátt fyrir aukna eftirspurn m.a. vegna fjölgunar ferðamanna.“

Mikill skortur var á nautakjöti síðasta sumar, íslenskir bændur önnuðu ekki hinni miklu eftirspurn eftir vörunni og þá neyddist Sláturfélag Suðurlands til nota danskt nautakjöt að hluta á móti íslensku hráefni í SS-pylsurnar.

„Þetta var tímabundið. Það litla sem við notuðum af erlendu nautakjöti í nokkrar vikur í sumar var fyllilega sambærilegt að gæðum og nautakjötið okkar,“ segir Guðmundur frá og bætir því við að nú séu allar afurðir fyrirtækisins með alíslensku hráefni og þannig verði það áfram. Ekki ætti að þurfa að grípa til innflutnings á háannatíma, sem er nokkrar vikur á sumrin.

Guðmundur segir fyrirtækið bregðast við aukinni eftirspurn með frekari hætti. Til að mynda með vöruþróun. „Við erum með aukið framboð af grillpylsu og hrápylsum (þurrpylsum) af ýmsu tagi m.a. rauðvíns-salamí.

Baldur Helgi Benjamínsson, formaður Landssamtaka kúabænda, bendir hins vegar á að það tekur 3-4 ár að bregðast við óvæntri aukinni eftirspurn og að varað hafi verið við skorti í mörg ár.„Nautakjötsframleiðsla er með þeim hætti að þetta er langtímaverkefni, framleiðslutíminn er þrjú ár. Við höfum verið að efla holdanautabúskap, þannig að bændur geti stundað öflugri ræktun og fengið betri gripi,“ segir hann frá og tiltekur að ýmsar hindranir séu í veginum. Lagabreytingu þurfi til að efla framleiðsluna en Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra hefur boðað að hann hyggist flytja frumvarp til breytinga á lögum um innflutning dýra þannig að til verði svipaður farvegur fyrir kynbótastarf holdanautabænda eins og í öðrum búgreinum.

„Ég sé þetta sem ákveðinn grundvallarþátt í því að það sé hægt að auka þessa framleiðslu. Þessi markaður er að stækka býsna hratt.“ Hvort það þarf að kaupa erlent kjöt í pylsur eða ekki er óvíst. Baldur Helgi segir fjölgun ferðamanna hafa mest áhrif á sölu nautakjöts. „Nautakjötið er kjöt sem erlendir gestir okkar þekkja.“kristjanabjorg@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×