Innlent

Nemum í byggingageiranum hefur fækkað um þriðjung

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Meistarinn og lærlingurinn. Sigurður Heimir Sigurðsson, formaður Múrarameistarafélags Reykjavíkur, ásamt lærlingnum Kristjáni Brynjarssyni. "Nú er mikið að gera sem betur fer og það vantar fleiri menn. Margir múrarameistarar eru farnir að nálgast sjötugt. Þetta er ekki vinna fyrir gamalmenni,“ segir Sigurður Heimir.
Meistarinn og lærlingurinn. Sigurður Heimir Sigurðsson, formaður Múrarameistarafélags Reykjavíkur, ásamt lærlingnum Kristjáni Brynjarssyni. "Nú er mikið að gera sem betur fer og það vantar fleiri menn. Margir múrarameistarar eru farnir að nálgast sjötugt. Þetta er ekki vinna fyrir gamalmenni,“ segir Sigurður Heimir. fréttablaðið/gva
Nemum í öllum greinum byggingageirans hefur fækkað um þriðjung frá árinu 2006. Þetta segir Guðmundur Hreinsson, skólastjóri Byggingatækniskólans. Meistara, sem margir eru farnir að eldast, vantar lærlinga í vinnu.

„Það fóru færri í handverksnám 2006 þótt það væri brjálað að gera á þessum tíma og fækkunin heldur áfram. Hún hófst nákvæmlega á þeim tíma þegar frjálst flæði vinnuafls milli landa byrjaði. Mitt mat er að það hljóti að vera samsvörun þarna á milli, það er að það hafi verið meiri tilhneiging til að ráða útlendinga í störf,“ tekur Guðmundur fram.

Hann kveðst vita til þess að byrjað sé að falast eftir útlendingum til vinnu í byggingageiranum nú þegar meira er orðið að gera. „Við vorum með frábæra útlenska handverksmenn hér á uppgangsárunum en þeir fóru til Noregs í kjölfar hrunsins. Þeir fara ekkert frekar að koma aftur hingað en íslensku handverksmennirnir sem fóru utan.“

Að sögn Guðmundar kom ábending frá yfirvöldum í kjölfar hrunsins um að veitt yrði sérstakt svigrúm í námi handverksnema. „Yfirleitt leyfðum við ekki nemum að fara á samning fyrr en þeir voru búnir með fyrstu grunnönnina hér en með auknu svigrúmi gátu þeir byrjað á samningi og komið svo til okkar. Þetta er enn óbreytt. Sumir ílengjast í vinnu og skila sér ekki aftur en nú er gríðarlegur fjöldi farinn að fara í gegnum raunfærninám á vegum Iðunnar. Þetta er lýsandi fyrir ástandið sem verður þegar slitið er á milli skóla og vinnustaðanáms.“ Meiri tengsl milli skóla og atvinnulífs eru í burðarliðnum, að því er Guðmundur greinir frá. „Það eru tillögur nokkurra skóla að færa heildarnámið inn í skólana eins og gert er í Skandinavíu. Núna sjáum við bara um skólaþáttinn en ekki vinnustaðanámið. Stefnt er að því að vera með tilraunakennslu í öllum þáttum námsins næsta haust í til dæmis húsasmíði. Við vonumst til að námið verði þá markvissara og að þá verði mögulega hægt að stytta það.“

Guðmundur Hreinsson, skólastjóri Byggingatækniskólans.
Gömlu karlarnir geta ekki hætt þegar lærlinga skortir

„Við erum farnir að eldast, alveg eins og læknarnir sem sögðu að ekki væri nóg endurnýjun í stéttinni. Þegar engir nýir byrja getum við gömlu karlarnir ekki hætt og slítum okkur út,“ segir Sigurður Heimir Sigurðsson, formaður Múrarameistarafélags Reykjavíkur. Hann segir aðeins fjóra sveina hafa útskrifast í múrverki í fyrra. Undanfarin ár hafi rúmlega 10 sveinar útskrifast á ári. Útskrifa þurfi 15 til 20 á ári til að endurnýjun verði í stéttinni en á þessari önn eru 22 við nám í múrverki á öllum stigum námsins.

„Nú er mikið að gera sem betur fer og það vantar fleiri menn. Margir múrarameistarar eru farnir að nálgast sjötugt. Þetta er ekki vinna fyrir gamalmenni. Ég er orðinn 65 ára og var að koma úr fjórðu axlaraðgerðinni. Þetta var mikill burður hér áður. Allt efni sem við vinnum með er þungt, eins og til dæmis steypan.“

Sem dæmi um hversu auðvelt er að fá vinnu í geiranum nú segir Sigurður að 28 ára gamall maður, sem langaði að byrja í faginu og komast á samning, hafi haft samband við hann. „Hálfri klukkustund eftir að ég sendi félögum mínum upplýsingar um hann var búið að ráða hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×