Innlent

Aukinn áhugi fyrir lífsskoðunarfélögum

Halldór Þ. Halldórsson
Halldór Þ. Halldórsson
Áhugi á því að stofna lífsskoðunarfélög hefur aukist, þó einungis eitt félag, Siðmennt, sé skráð sem slíkt hjá Hagstofunni.

Halldór Þormar Halldórsson, sem annast skráningu þessara félaga á starfsstöð sýslumanns Norðurlands eystra á Siglufirði, segir að tvö formleg erindi séu í vinnslu hjá embættinu. Áhugi almennings á stofnun slíkra félaga er þó mikill og fyrirspurnum um umsóknarferli og viðmið hafi fjölgað mjög hjá embættinu.

Lögum um trúar- og lífsskoðunarfélög var breytt árið 2013 og ákvæðum um viðurkenningu á lífsskoðunarfélögum bætt við.

Til þess að verða skráð lífsskoðunarfélag þarf félagið að byggja á veraldlegum lífsskoðunum, miða starfsemi sína við ákveðin siðferðisgildi og mannrækt auk þess sem félagið þarf að hafa náð fótfestu og meðlimir þess að vera fleiri en 25 lögráða einstaklingar.

Erindi væntanlegra lífsskoðunarfélaga fara fyrir sérstaka nefnd sem innanríkisráðherra skipar úr nokkrum deildum Háskóla Íslands. Hljóti félag skráningu er því skylt að sjá um tilteknar athafnir eins og útfarir, giftingar, skírnir og fermingar.

Samfara þessari þróun hefur þeim sem skrá sig utan trúfélaga fjölgað mikið milli ára, voru 10.336 árið 2010 en 17.218 árið 2014. Hópurinn sem gefur sig upp sem ótilgreindan eða í öðru trúfélagi en þeim sem eru á skrá Hagstofunnar hefur hins vegar verið nokkuð stór lengi, í honum voru 19.647 árið 2010 en 20.959 árið 2014.

Þannig standa í dag um 40 þúsund Íslendingar utan trú- eða lífsskoðunarfélaga eða þá að það sem þeir aðhyllast hefur ekki hlotið skráningu. Þá hefur trúfélögum fjölgað mikið frá árinu 2010 þegar 27 slík félög voru á skrá en í dag eru þau 45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×