Innlent

Akstursþjónusta fatlaðra fær þúsund símtöl á dag

Margt fatlað fólk hefur kvartað undan akstursþjónustu eftir breytingar um áramótin.
Margt fatlað fólk hefur kvartað undan akstursþjónustu eftir breytingar um áramótin. Fréttablaðið/Pjetur
Í minnisblaði frá framkvæmdastjóra Strætó og sviðsstjóra akstursþjónustunnar segir að frá því Strætó tók við akstri fatlaðra fyrir fleiri sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu en Reykjavík um áramótin hafi að meðaltali borist 980 símtöl á dag frá notendum þjónustunnar.

Þann dag sem minnisblaðið var tekið saman, miðvikudaginn 14. janúar, hafi pantanirnar verið 1.584. Hver ferð taki að meðaltali 17 mínútur og eknir séu 6,3 kílómetrar í ferð.

Raktar eru í minnisblaðinu nokkrar athugasemdir vegna hnökra á akstrinum. Meðal þeirra er að skort hafi samráð við hagsmunasamtök fatlaðra við breytinguna á akstursþjónustunni.

„Í samræmi við þjónustulýsingu akstursþjónustunnar var óskað eftir tilnefningum í þjónustuhópa akstursþjónustunnar frá Öryrkjabandalaginu og Þroskahjálp þann 1. desember 2014. Tilnefningar bárust frá Þroskhjálp 9. desember og frá Örykjabandalaginu 6. janúar 2015 eftir ítrekaðar tilraunir,“ segir í minnisblaði Strætó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×