Innlent

Samkomulag við Mannvit er ekki staðfest

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR, segir samkomulag við Mannvit ekki í höfn.
Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR, segir samkomulag við Mannvit ekki í höfn. Mynd/OR
Upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, Eiríkur Hjálmarsson, segir ekki rétt það sem haft var eftir framkvæmdastjóra Mannvits í Fréttablaðinu í gær, að samkomulagi væri náð um greiðslur vegna ráðgjafar við Hverahlíðarlögn.

„Menn hittust á fundi rétt fyrir jól og þar fóru menn yfir sín sjónarmið en skjalfest niðurstaða í þessu ágreiningsmáli liggur ekki fyrir,“ segir Eiríkur. Málið verði rætt áfram.

Orka náttúrunnar, dótturfyrirtæki OR, hefur neitað að greiða uppsetta viðbótarreikninga frá ráðgjöfum Mannvits vegna hönnunar gufulagnar frá Hverahlíð að Hellisheiðarvirkjun. Páll Erland, framkvæmdastjóri ON, lýsti ábyrgð á hendur ráðgjöfunum á mistökum við gerð kostnaðaráætlana.

Meðal mistaka sem talin eru upp í minnisblaði til forstjóra OR er að lengd á lögnum var vanáætluð um yfir 500 metra sem í öðru tilvikinu var 14 prósent af heildarlögninni. Sömuleiðis hafi vantað hálfan kílómetra upp á háspennustreng.

„Áréttað er að arðsemismat vegna framkvæmdanna var yfirfarið af stjórn ON á grunni hærri kostnaðaráætlunar og framkvæmdin samþykkt í stjórn félagsins á þeim forsendum, sem mjög arðbær,“ segir í svari frá OR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×